146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún kom inn á stöðu framhaldsskólanna. Mig langar til að spyrja hana aðeins út í hana. Við þekkjum að bóknám í framhaldsskólum var stytt niður í þrjú ár og talað um að sá sparnaður rynni aftur til framhaldsskólanna. Það virðist ekki hafa gengið eftir miðað við þessa áætlun og mikil uppsöfnuð fjárþörf er á framhaldsskólastiginu vítt og breitt um landið. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hún sjái fyrir sér að rekstur framhaldsskólanna gangi fyrir sig miðað við þann mikla niðurskurð sem blasir við og hvort þær hugmyndir og áform um að sameina Fjölbrautaskólann í Ármúla við Tækniskólann hefðu ekki átt að koma fram í þessari fjármálaáætlun sem hér liggur fyrir frá stjórnvöldum.