146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að svo verði ekki. Við erum öll slegin yfir þeim fréttum sem berast frá útlöndum sem snúa að öryggi þjóða. Við heyrum líka sífellt af því að glæpir í samfélaginu eru farnir að verða meira alþjóðlegir. Þótt ég hafi ekki nefnt það í ræðu minni held ég að það sé mjög brýnt sé að byggja upp sérþekkingu í lögreglunni sem snýr að netglæpum. Bent hefur verið á að ein af ástæðunum fyrir því að dregið hafi úr innbrotum sé einfaldlega að það skili miklu meiru að nota tölvuna til að ræna. Jafnvel er talað um að það sé orðið betra að skilja bara lykilorðin sín eftir einhvers staðar heima frekar en að setja þau í tölvuna því að það sé mun auðveldara að nálgast þau þar. Þetta eru verkefni sem krefjast mikillar sérþekkingar. Við eigum gott fólk, eins og víða innan lögreglunnar. (Forseti hringir.) Ég hefði viljað sjá þarna mun markvissari stefnumörkun og að ekki væri sífellt verið að vísa til einhverra plagga sem eigi eftir að koma, en svo virðist ekki fylgja neinn peningur.