146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Takk fyrir þetta. Það vekur athygli mína að stjórnarsáttmáli sem nær ekki eins langt inn í framtíðina og ríkisfjármálaáætlun skuli ekki skila sér inn í hana. Einhver excel-glöggur maður eða kona hér á þingi mætti gjarnan keyra saman það sem ratar inn í fjármálaáætlunina og hvað ekki, því að hér er líka talað um að vinna markvisst að því að tryggja börnum leikskólapláss og dagvist þegar fæðingarorlofi sleppi, með sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga. Hvað halda menn að það muni kosta? Halda menn að sveitarfélögin muni einhliða lækka aldur barna sem komast inn í leikskóla án þess að skipting skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga breytist eitthvað? Frú forseti, við verðum eiginlega að samkeyra þessi tvö plögg og sjá hvort búið var að svíkja loforðin áður en fjármálaáætlunin var lögð fram.