146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því strax og þessi fjármálaáætlun kom fram og við þingmenn fórum að ræða milli stjórnar og stjórnarandstöðu, að í svörum stjórnarliða var áberandi að það var eins og þessi fjármálaáætlun skipti ekki neinu máli. Þetta væri bara svona eitthvert málamyndaplagg. Ég veit hversu miklu máli þetta plagg skiptir. Hér er verið að úthluta rammanum fyrir hvern ráðherra, hvert ráðuneyti, hvert málefnasvið. Það þekkja allir sem hafa verið í ráðuneytunum þá setningu sem kemur frá fjármálaráðuneytinu, og ég vænti þess að þingmaðurinn sjálfur kannist ágætlega við hana; að þetta sé utan ramma. Og hvers konar slagsmál það eru, alvöruslagsmál, að berjast fyrir að ná einhverju aftur inn í ramma. Ég hvet stjórnarþingmenn til að átta sig á alvörunni (Forseti hringir.) sem liggur á bak við það að ýta á græna takkann um þessar tillögur. Þær eru ekki til málamynda, þetta er alvöru.