146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:14]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir mjög greinargóða ræðu sem flutt var á ekta íslensku. Mig langar reyndar að spyrja hv. þingmann út í það sem mér heyrðist hann koma inn á í fyrstu, sem var útgjaldaramminn sem var lagður til með fjármálastefnunni sem síðan var samþykkt hér á Alþingi þegar við ræddum þetta 41,5% þak sem útgjöld ríkisins mættu ekki fara yfir af vergri landsframleiðslu. Mig langaði að nýta tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort hann — þó að búið sé að samþykkja þetta, þetta eru nátengd mál — hafi ekki áhyggjur af því hvaða leið við ættum að fara, ef landsframleiðsla dregst saman, til að halda úti þjónustu, hvort hann geti tekið undir áhyggjur mínar af því að þessi hægri ríkisstjórn ætli sér að fara í einkavinavæðingu til að halda úti grunnþjónustu í landinu eða hvort (Forseti hringir.) hann telji um óþarfaáhyggjur að ræða vegna þess þaks sem sett er fram þarna.