146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar. Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hans um ógagnsæið í fjármálaáætluninni þar sem ekki er gerður greinarmunur á annars vegar rekstrarfé og hins vegar fé til fjárfestinga. Það kemur gríðarlega illa niður á okkar helstu innviðum, þ.e. heilbrigðisþjónustu og skólakerfinu til að mynda. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin skilar auðu hvað varðar samgöngumál, algerlega auðu. Mig langar að heyra hvað hv. þingmaður hefur um það að segja. Og að lokum varðandi framtíðarskipulag í þessari vinnu, varðandi þörf á samræmingu milli samgönguáætlunar og fjármála sveitarfélaga, þá eru sveitarfélögin nánast skilin eftir. Það er risastór galli á fjármálaáætlun hvernig sveitarfélögin eigi að skila af sér. Mig langar aðeins til að heyra um þetta frá hv. þingmanni.