146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Persónulega hef ég alveg eins gaman af að ganga á fjöll eða gera eitthvað allt annað en að hugsa um efnahagsmál. Það hefur bara verið mitt hlutskipti býsna lengi í pólitík að sýsla við þau. Það var nú kannski meira það sem ég var að segja.

Þekki ég eitthvað til sambærilegra vinnubragða erlendis? Já, við sóttum nú þessi fordæmi að miklu leyti til Svíþjóðar. Þar er svona áætlanagerð í föstum skorðum. Auðvitað höfum við lengi talað fyrir henni á Íslandi og hún hefur að hluta til verið í veikburða formi, fylgiskjöl með fjárlagafrumvörpum og svo framvegis. Í júní 2009 drifum við fram okkar fyrstu fimm ára áætlun til að reyna að kortleggja hvernig Ísland mundi takast á við og vinna sig út úr erfiðleikunum. Menn höfðu nú engan óskaplega tíma þá eða þægilegar aðstæður til þess, en við gerðum það. Og síðan árlega eftir það. Það komu út mjög góðar svona áætlanir 2009, 2011, 2012. Og eru til í ágætisbókum. Þannig að þetta er nú ekki eins nýtt undir sólinni og menn vilja kannski vera láta. Þetta er nýtt í þeim skilningi að nú er þetta hluti af lögum, hluti af lögbundnu ferli sem búið er að setja utan um þetta. Ég er ekki að gagnrýna sjálft ferlið. Það er fyrst og fremst tvennt sem ég gagnrýni við þetta hér, (Forseti hringir.) það er innihaldið, sem er allt of rýrt, og það er framsetningin, hún er allt of ógagnsæ og það er engin ástæða til þess. Það er ekkert í lögunum sem kallar á að þetta sé svona gert.