146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:30]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir snöfurmannlega ræðu. Mig langar að koma aðeins inn á málefni velferðarnefndar. Eitt af stóru loforðum ríkisstjórnarinnar var að stórauka framlög til heilbrigðismála. Menn trúðu kannski að það yrði efnt. Ein helsta skrautfjöður ríkisstjórnarinnar eru þessi meintu hækkuðu framlög. En það þarf miklu meira en eina fjöður til að klæða heilan fugl og gangverkið verður að virka áfram, þrátt fyrir að við hendum okkur í Landspítalabygginguna. Rekstur og uppbygging á landsbyggðinni: Sér hv. þingmaður merki þess í þessari áætlun að það eigi að viðhalda henni eða efla? Það eru til dæmis stór plön um uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri, er hægt að merkja að við það verði staðið? Hvað les hv. þingmaður út úr þessari fjármálaáætlun varðandi byggðastefnu almennt?