146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er það gleðilegt að áformum um uppbyggingu Landspítalans verði haldið áfram. Það er nú ekki eins og þessi ríkisstjórn hafi ákveðið það með þessari áætlun. Við erum að tala um áframhald á verkefni sem var í raun ákveðið hér Alþingi fyrir þremur til fimm árum að uppistöðu til og hefur verið fylgt eftir síðan; er komið í tiltekinn farveg og eftir honum verður haldið áfram og það er gott. Það verður hins vegar að reka heilbrigðiskerfið á meðan. Og margs þarf búið við. Það er svo víða sem þarf að taka til hendi. Í uppbyggingu heilsugæslunnar, eflingu hennar; allir eru sammála um það. Við verðum að reikna með auknum útgjöldum í hjúkrunarheimilin og þann málaflokk, umönnun aldraðra, og landsbyggðin vonast að sjálfsögðu til að fá sinn skerf, þar á meðal Sjúkrahúsið á Akureyri sem er í raun í mjög hliðstæðri stöðu og Landspítalinn að því leyti að það bráðvantar nýja legudeild og endurbætur á því húsnæði sem þar með losnar til að geta skipulagt sína starfsemi inn í framtíðina sem sérgreinasjúkrahús og háskólasjúkrahús í nokkrum mæli.