146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:05]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er akkúrat málið, hv. þingmaður. Þegar búið er að flysja hýðið af raunverulegum tölum, af raunverulegri aukningu, eins og til sjúkrahúsþjónustu, standa eftir 338 milljónir. En af hverju er það sett svona fram? Það er af því að hæstv. ríkisstjórn vill ekki standa frammi fyrir alþjóð og segja: Sjá, á næstu fimm árum ætlum við að auka framlög til sjúkrahúsþjónustu um 338 milljónir. Af því að hún veit sem er hvaða viðbrögð það myndi fá. Þess vegna er reynt að kæfa þetta í fagurgala, rugla saman rekstri og framkvæmdum og meira að segja reynir hæstv. velferðarráðherra að leiðrétta forsvarsmenn Landspítalans sem þurfa að leiðrétta leiðréttingu hæstv. velferðarráðherra. Af hverju horfist fólk ekki bara í augu við eigin gerðir? Af hverju stendur það ekki bara beint í baki og talar fyrir sinni stefnu? Því að þetta hlýtur að vera stefna Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. (Gripið fram í: Akkúrat.)