146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Trúverðugleikinn að minnka? Já. Hann hefur nú svo sem aldrei verið neitt gríðarlega mikill í mínum augum þegar að þessari ríkisstjórn kemur. En vissulega er það þannig að þegar orða og loforða sem fram koma í stjórnarsáttmálanum sér ekki lengur stað í stóra plagginu sem á að útmála næstu fimm árin. Örfáum mánuðum síðar fer maður aðeins að spyrja sig hvað fólk meinar raunverulega af því sem það ýmist setur á blað eða lætur út úr sér.

Svo ég gerist persónulegur í ræðustól finnst mér þetta vera ein mesta meinsemd íslenskra stjórnmála í dag. Við erum einhvern veginn hætt að reyna að tala skýrt um hugsjónir okkar, um hvað við viljum gera. Vilji fólk einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni, svo dæmi sé tekið, á það bara að stíga fram og segja það, vera tilbúið að taka við gagnrýni, leggja fram sín rök, (Forseti hringir.) hlusta á mótrök og láta þau svo í dóm kjósenda, en ekki að lauma því inn án þess að segja það, með því að setja eitt á blað og standa svo ekki við það þegar kemur að öðru.