146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar er mikið fjallað um loftslagsmál. Eitt mikilvægasta verkefni á sviði loftslagsmála er að minnka umferð og auka almenningssamgöngur. Talað er um það í meirihlutaáliti nefndarinnar að það verði að passa sig á að fjármálaáætlun bindi ekki hendur ríkisstjórnarinnar svo hún geti ekki tekið þátt í verkefni um borgarlínu og almenningssamgöngur. Borgarlínan er sennilega eitt mikilvægasta verkefni sem við eigum fram undan núna (Gripið fram í: Heyr, heyr.) á sviði umhverfismála. Er eitthvað í plagginu sem gefur vísbendingu um að menn ætli að verja einhverjum fjármunum í þá framkvæmd? Hún verður dýr en hún mun spara okkur gríðarlega peninga þegar fram í sækir.