146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikil er trú þín, kona, segir í einhverri bók. Og mikil er trú þín, hv. þm. Smári McCarthy, að halda að ég geti á þessari mínútu útskýrt fyrir þér eitthvað eitt sem gæti fangað alla gallana og leiðrétt þá og lagað varðandi þessa fjármálaáætlun. Ég ætla að vera heiðarlegur hvað það varðar að ég hef ekki það svar. Ég hef hins vegar margar ábendingar frá sjálfum mér hvað varðar framsetningu þessa plaggs og ekki síður frá þeim sem reyndari eru í þessu. Í grunninn finnst mér að svona plagg eigi að vera eins auðlesanlegt og skýrt og mögulegt er. Maður á að sjá nákvæmlega rammann sem ætlaður er í verkefnin, sjá feril fjármunanna, hvað á að fara í hvert verkefni, og hafa þetta eins skýrt og mögulegt er; öfugt við þetta svar mitt sem var ekki mjög skýrt.