146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:17]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Sú fjármálaáætlun sem við ræðum hér, allt til ársins 2022, ber þess merki að við erum að auka útgjöld ríkissjóðs allhressilega, þau verða u.þ.b. 212 milljörðum hærri árið 2022 en gert er ráð fyrir að þau verði í ár samkvæmt fjárlögum. Þetta er hækkun upp á liðlega 2,5 milljónir að raunvirði á hverja íslenska fjölskyldu. Það er líka ljóst að þegar farið er yfir málefnasviðin er verið að auka útgjöld víða, þar endurspeglast m.a. stefna ríkisstjórnarinnar og forgangsröðun. Þannig að menn átti sig betur á því þá er það svo að útgjöld til heilbrigðismála verða 34 milljörðum kr. hærri að raungildi árið 2022 en á þessu ári, endurtek: 34 milljörðum hærri. En samkvæmt þeim umræðum sem hafa átt sér stað í allan dag og í allt kvöld þá mætti helst halda að hér væri blóðugur niðurskurðarhnífur á lofti.

Til málefna öryrkja verða framlögin liðlega 14 milljörðum hærri að raungildi árið 2022 en á þessu ári. Framlög til málefna aldraðra verða 9 milljörðum hærri að raunvirði árið 2022 en á þessu ári. Hafið í huga þá gríðarlegu hækkun sem var síðan á milli áranna 2016 og 2017, líkt og fjármálaráð bendir á í umsögn sinni um fjármálaáætlunina, þar sem útgjaldaaukningin var mjög mikil, eða um 8,5% í heild að raungildi.

Ég ætla að benda á að þegar ég tala um að verið sé að auka útgjöld, m.a. til heilbrigðismála, þá er ég ekki að tala um stofnkostnað. Ég er bara að tala um það sem ætlað er að renni til málaflokksins fyrir utan það sem er í rammanum, þ.e. fyrir utan stofnkostnaðinn. Það mætti ætla að þingmenn hefðu ekki áttað sig á þessum staðreyndum.

Vert er að hafa í huga líka að við erum að tala um að í heild renni til málefnasviðanna, fyrir utan stofnkostnað, 83 milljörðum kr. hærri fjárhæð árið 2022 en á þessu ári. 83 milljarða raunaukning á milli þessara ára. Samtals verður fjárfesting m.a. í heilbrigðiskerfinu á þessum sex árum, 2017–2022, yfir 100 milljarðar, yfir 100 milljarðar (Gripið fram í.) á þessum árum. Þú getur m.a. kynnt þér álit meiri hluta fjárlaganefndar þar sem þær tölur koma sundurgreindar fram. Svo er líka hægt að leggja þær saman og fá niðurstöðu sem er rétt. Ég veit að þetta getur verið óþægilegt stundum. En svona er þetta.

Það er auðvitað hægt að gagnrýna þessa fjármálaáætlun frá ýmsum hliðum og ég hygg að það séu mjög margir sem munu gagnrýna fjármálaáætlunina fyrir það að of langt sé gengið í útgjöldum, að vöxtur útgjalda sé orðinn hættulega mikill, sérstaklega miðað við þær efnahagslegu aðstæður sem blasa við í dag. Þau rök eru sterk, en engu að síður er haldið áfram og ætlunin er að (SIJ: Að lækka skatta.) — það er nú ekki mikið um skattalækkanir í þessari fjármálaáætlun, því miður, hv. þm. Sigurður Ingi, við getum kannski einhvern tímann síðar tekið höndum saman í þeim efnum.

Áður en ég fer einmitt yfir skatta, sérstaklega virðisaukaskatt sem mér hefur verið hugleikinn og þær hugmyndir sem koma fram í fjármálaáætluninni, finnst mér rétt að við a.m.k. ræðum það líka í þingsal hvernig við höfum staðið að því að fjalla um fjármálaáætlun, hvernig við höfum staðið að verki í nefndum og hvernig okkur er búin aðstaða til að takast á við það verkefni að leggja línurnar hér til lengri tíma þegar kemur að fjármálum ríkisins og í rauninni fjármálum hins opinbera. Við getum öll verið sammála um að sá tímarammi sem okkur var ætlaður til verksins að þessu sinni var of knappur. Þessu þarf að breyta þegar við tökum til hendinni á nýju ári.

Við verðum að búa svo um hnútana við gerð fjárlaga fyrir komandi ár að hægt sé að styrkja starfsemi þingsins með þeim hætti að okkur verði gert kleift, þingmönnum, að leggja sjálfstætt mat á fjármálaáætlun, á fjármálastefnuna og fjárlög eða fjárlagafrumvörp hvers árs. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta verður ekki gert öðruvísi en tryggt verði — og það er undir okkur komið, það er ekki ríkisstjórnin, það er fjárveitingavaldið sjálft sem tekur ákvörðun um það hvort hægt sé að byggja upp sérfræðiþekkingu innan Alþingis sem þingmenn hafa aðgengi að, þá á ég við hagfræðinga, ég á við endurskoðendur, sérfræðinga á sviði skatta, sérfræðinga í þjóðhagsfræðum o.s.frv. Ég held að þetta eigi að vera loforð okkar þegar við fjöllum um fjármálaáætlunina. Við getum a.m.k. verið sammála um að taka til hendinni og sameinast hér í haust og fyrir komandi fjárlagaár 2018 að stíga þetta skref.

Við þurfum líka að hugleiða að það verksvið sem unnið var eftir — eða réttara sagt fjármálaáætlun sem er auðvitað á forræði fjárlaganefndar og ég tek fram að ég lít svo á að meiri hluti fjárlaganefndar hafi unnið gríðarlega vel og gott starf og það nefndarálit sem liggur hér fyrir frá meiri hlutanum sé til mikillar fyrirmyndar og varpi skýrara ljósi á fjármálaáætlunina og dragi fram ýmsar tölulegar upplýsingar sem menn eðli málsins samkvæmt áttu kannski erfitt með að átta sig á í fyrirliggjandi greinargerð með fjármálaáætlun. En það breytir ekki því að verksvið annarra fastanefnda þarf að vera skýrara, verkefnið þarf að liggja fyrir og við þurfum að átta okkur á því til hvers er ætlast af fastanefndum frá hendi fjárlaganefndar.

Það er alveg ljóst, ég heyri það og það er réttmæt gagnrýni sem komið hefur hér fram, að framsetningin sem er á fjármálaáætluninni er ekki eins og best verður á kosið. Hún er ekki eins skýr, hún er ekki eins greinargóð og við viljum að hún sé. Ég veit og ég hef heyrt hæstv. fjármálaráðherra taka undir þá gagnrýni þannig að við megum vænta þess að á nýju ári þegar lögð verður fram fjármálaáætlun að nýju verði töluverðar breytingar á framsetningu þar gerðar og veit á gott.

Ég hef einnig vakið athygli á því að nauðsynlegt er fyrir okkur að með fjármálaáætluninni sé skýr fjárfestingaráætlun til lengri tíma þannig að við áttum okkur á því hvað við erum að fara að gera, í hvaða framkvæmdir við erum að ráðast á einstökum málasviðum, bæði í heild og einstök stórverkefni. Þetta skiptir okkur máli. Slíkri áætlun held ég að nauðsynlegt sé að skipta upp í tvennt; annars vegar hagrænir innviðir og hins vegar félagslegir. En með þessari áætlun verður einnig að fylgja hvernig á að fjármagna þá innviðafjárfestingu sem ég veit að við erum öll sammála um að þarf að ráðast í. Við vitum hins vegar ekki alveg nákvæmlega, og höfum ekki yfirsýn yfir það, hversu umfangsmiklar innviðafjárfestingar, hvort heldur í hagrænum innviðum eða félagslegum, eru nauðsynlegar á næstu fimm eða tíu árum. Við vitum að það er uppsöfnuð þörf. Menn deila um það hversu mikil hún er. Hún er að líkindum ekki undir 250 milljörðum. Hún er líklegast töluvert hærri. Það er ljóst að miðað við þá þörf sem er síðan á nýjum fjárfestingum erum við að tala um að á næsta áratug þurfum við að standa frammi fyrir því að fjármagna fyrir a.m.k. 700 milljarða í innviðum. Við þurfum að finna út úr því hvernig við ætlum að gera það og með hvaða hætti. Ég held að nauðsynlegt sé að við hefjum það verk í fjármálaáætlun sem lögð verður fram á komandi árum.

Við getum auðvitað deilt um það hvernig við eigum að standa undir þeirri fjárfestingu. Ég hef mínar skoðanir og ég er alveg viss um að það eru ekki allir í þessum sal sem taka undir þær, en ég hygg þó að við getum hugsanlega náð samkomulagi um að fjármagna hagræna innviði, sem er þó minni hluti þessa verkefnis, með því að efna til samstarfs á milli ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila, fyrst og fremst kannski lífeyrissjóða.

Í þessu sambandi hljótum við líka að velta því fyrir okkur án æsingar og án þess að útiloka eitt eða neitt að fara yfir þær eignir sem ríkið á nú þegar og spyrja okkur: Eru þessar eignir þær sem við teljum nauðsynlegt að ríkið eigi? Er sameiginlegum fjármunum okkar betur varið með því að umbreyta þessum eignum í aðrar? Getur verið skynsamlegt, líkt og meiri hluti fjárlaganefndar leggur til, að það sé a.m.k. skoðað hvort skynsamlegt sé að selja Flugstöð Leifs Eiríkssonar, umbreyta henni í brýr, hafnir, vegi, fjarskiptanet o.s.frv.? Ég hygg að hagsmunum fleiri Íslendinga sé betur borgið með því að láta þá fjármuni sem liggja í flugstöðinni renna í slík verkefni, en ég veit að það eru ekki allir sammála mér. En þetta er það sem ég tel að við eigum að ræða.

Ég ætla aðeins að víkja að því sem við í efnahags- og viðskiptanefnd vorum fyrst og fremst að horfa á. Við létum útgjöldin eiga sig, það erfiða verkefni kom á borð annarra nefnda, en efnahags- og viðskiptanefnd horfði fyrst og fremst á tekjur og tekjuöflun ríkissjóðs. Það er auðvitað þannig að þegar við í þessum sal tökum ákvörðun um að breyta lögum um skatta, skiptir ekki máli hvort það er tekjuskattur einstaklinga eða fyrirtækja, virðisaukaskattur, tollar eða hvaða gjöld það eru, þá erum við of upptekin af því að horfa til þess hvaða áhrif breytingarnar til hækkunar eða lækkunar hafa á tekjur ríkissjóðs. Auðvitað skiptir það máli, en það er ekki það eina sem skiptir máli. Við verðum nefnilega að sannfærast um að það sem við erum að gera þegar kemur að því að breyta leikreglum í skattkerfinu, hvort heldur það snýr að heimilum eða fyrirtækjum, verðum við að hafa í huga hvaða áhrif þær breytingar hafa á stöðu okkar gagnvart öðrum löndum, hvaða áhrif breytingarnar hafa á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, samkeppnisstöðu íslenskra launþega eða launamanna réttara sagt o.s.frv.

Ég er sjálfur sannfærður um að þegar við hér erum að breyta leikreglum í skattkerfinu þá ber okkur skylda til þess að huga að því hvaða áhrif þær breytingar hafa á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Við þurfum að átta okkur á því hvort þær breytingar dragi með einum eða öðrum hætti, beint eða óbeint, úr þrótti efnahagslífsins. Og við þurfum að átta okkur á því hvort það til lengri tíma litið sé einmitt leiðin til að veikja skattstofna ríkisins.

Nú er það svo að virðisaukaskattur er mikilvægasti skattstofn ríkisins. Samkvæmt fjárlögum þessa árs koma u.þ.b. 36% skatttekna ríkisins frá virðisauka. Þegar litið er til fyrirliggjandi fjármálaáætlunar mun hlutdeild virðisaukaskatts fremur aukast í hlutfalli við aðra tekjustofna. Við höfum notið þess á undanförnum árum að tekjur af virðisauka hafa hækkað gríðarlega. Þær eru 46 milljörðum hærri á seinasta ári að raunvirði en árið 2000, 46 þúsund milljónum hærri. Þetta er raunhækkun upp á tæplega 30%. Það er nokkuð vel af sér vikið á einum skattstofni að hækka að raunvirði um 30% á ekki lengri tíma. Það er ekki síst þess vegna, með hliðsjón af því hversu mikilvægur þessi skattstofn er, sem ég tel mikilvægt að þegar við ráðumst í það að gera breytingar vöndum við til verka, að við hugum vel að öllum þáttum.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er u.þ.b. töluvert miklu styttri en ég gerði mér grein fyrir (Gripið fram í.) Nú ætla ég að fá að skrá mig í ræðu tvö, vegna þess að ég ætla ekki að ljúka þessari umfjöllun minni öðruvísi en ræða örstutt um virðisaukaskatt.