146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að togast á um tölur á ýmsan máta. Ég er til dæmis hér með útreikning sem er gerður með fjórum mismunandi útfærslum. Það er alveg hægt að leggja hann hér fram og túlka á ýmsa vegu eins og gjarnan er gert þegar verið er að fegra myndir eða setja fram með þeim hætti sem manni hentar best hverju sinni.

Þingmaðurinn sagði hér áðan að við værum á ystu höf í útgjöldum ríkisins. Mig langar til að spyrja, af því að nú er samneyslan í sögulegu lágmarki, hvert hann telur að það hlutfall eigi að vera, hvað sé eðlilegt; það hefur lækkað úr 23–24% í 21% undanfarin misseri. Er hann sáttur við það eða ekki? Ég verð líklega að koma með síðari spurninguna hér á eftir.

En mig langar samt til að segja að það kemur fram í gögnum fjármálaráðs varðandi innlendu eftirspurnina, þ.e. þegar við erum að tala um efnahagshorfurnar, (Forseti hringir.) að hún muni drífa áfram hagvöxtinn og greiningu skorti, (Forseti hringir.) til dæmis af því að þingmaðurinn talaði mikið um fjárfestingar, (Forseti hringir.) á því hvers vegna þær fara úr 12,6% niður í tæplega 1%. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort hann sé sammála þessari greiningu.

(Forseti (NicM): Forseti vill aftur minna ræðumenn á að halda sig við tímann.)