146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er svo stuttur tími að maður getur varla byrjað að tala. Mig langar líka til að halda hér áfram af því að fjármálastefnan tekur einmitt á þessu öllu í vergri landsframleiðslu; við þurfum þá að breyta forminu eins og hv. þingmaður nefndi. Það breytir því ekki að við erum alltaf að fjalla um einhvern ákveðinn hluta af landsframleiðslu eða einhverju öðru viðmiði og höfum haft þetta til þess fram til þessa.

Hv. þingmaður kom líka inn á eignasölu og annað slíkt og að við þyrftum að skoða það. Ég verð þá að rifja upp símasöluna, hvort hún hafi verið skynsamleg. Sumum þótti það. Mér þótti það ekki. Ég spyr þingmanninn hvort hann telji að það hafi verið góð ráðstöfun.

Mig langar líka til að velta upp einstaka málefni af því við höfum talað um heilbrigðisþjónustu og annað slíkt. Lögreglan telur sig til dæmis þurfa að fækka um ansi mörg stöðugildi hér á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurlandi og fyrir norðan. Þar eru útgjöldin, án þess að við séum með þyrlurnar inni, að vaxa um 1,9% upp í 2,8% á tímabilinu. (Forseti hringir.) Telur þingmaðurinn að það sé ásættanlegt og nægjanlegt til þess að við getum haldið uppi öryggisstigi í landinu?