146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, ég held að þegar kemur að venjulegum samkeppnisrekstri sé nú betra að láta einkaaðila en ríkið sjá um hann. Ég er ekki viss um ríkinu farnist það vel úr hendi að reka nærfataverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða sælgætisverslun o.s.frv. Ég tel að einkaaðilar eigi að gera það. Ég held að ríkið eigi einmitt að einbeita sér að þeim verkefnum sem við erum sammála um. (SSv: … nærbuxur …) Sem við eigum að vera sammála um. Einskiptisaðgerð og ekki einskiptisaðgerð. Bíddu nú við. Heldur hv. þingmaður því fram að vegir, brýr, hafnir, séu verri eign en Flugstöð Leifs Eiríkssonar? (Gripið fram í: Það sagði hann ekki.) Einskiptisaðgerð, það er bara eins og eignir hverfi (Forseti hringir.) úr sameiginlegri eigu okkar. Alls ekki. Ég er bara að velta því upp (Forseti hringir.) að það kemur til greina hjá okkur að við förum nú að hugleiða hvernig við nýtum (Forseti hringir.) sameiginlega fjármuni okkar.