146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

staðan í gjaldmiðilsmálum.

[10:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í fjölmiðlum í fyrradag að staðan í gjaldmiðilsmálum væri svo alvarleg að við yrðum að horfa á mjög róttækar lausnir, eða með orðum hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Við getum ekki haft þennan fljótandi gjaldmiðil. Þetta á ekki að vera rússíbanareið.“

Ég velti fyrir mér til hvaða aðgerða hæstv. ráðherra er að vísa. Auðvitað velti ég því fyrir mér í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur lagt fram fjármálaáætlun þar sem eru boðaðar skattalækkanir sem augljóslega gera hagstjórnina enn verr í stakk búna til að takast á við þensluna en nú þegar er orðið. Augljóslega á hæstv. ráðherra ekki við breytta skattstefnu til að draga úr peningamagni í umferð.

Í ljósi þess að við þekkjum stefnu hæstv. ráðherra og flokks hans koma tvær róttækar lausnir í huga og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra:

Er hann að tala fyrir fastgengisstefnu með myntráði eins og við þekkjum annars staðar frá? Er hann að tala fyrir inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru eða upptöku einhvers annars gjaldmiðils? Hvaða róttæku lausnir á hæstv. ráðherra við?

Hæstv. ráðherra hefur líka látið hafa það eftir sér að núverandi fyrirkomulag gjaldmiðilsmála sé ónýtt. Nú er starfandi peningastefnunefnd á vegum hæstv. ríkisstjórnar og ég spyr:

Hver er staða ríkisstjórnarsamstarfsins ef niðurstaða peningastefnunefndarinnar verður áframhaldandi flotgengi með verðbólgumarkmiði? Með einhverjum þjóðhagsvarúðartækjum eins og nú er? Mun þessi ríkisstjórn þá halda áfram? Er hæstv. fjármálaráðherra sætt eftir að hafa látið þau orð falla að núverandi fyrirkomulag sé ónýtt? Er hæstv. ráðherra jafnvel að setja pressu á niðurstöðu peningastefnunefndar, að þar verði boðið upp á róttækar lausnir og hverjar eru þessar róttæku lausnir, frú forseti?