146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

staðan í gjaldmiðilsmálum.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er vissulega rétt að ég og ýmsir aðrir höfum komið auga á að það er grafalvarlegt mál þegar gjaldmiðill breytir svo hratt um gengi, eins og verið hefur með íslensku krónuna undanfarin tvö ár, má segja, en svo hefur sannarlega ekki hægt neitt á styrkingunni. Það er vissulega hægt að grípa til ýmiss konar aðgerða. Við þekkjum hvað gert hefur verið, að Seðlabankinn hefur verið með uppkaup, en hann hefur lýst því yfir að hann ætli að draga úr inngripum. Við höfum afnumið höft á fjármagnsflæði þannig að nú geta íslensk fyrirtæki, einstaklingar og lífeyrissjóðir fjárfest erlendis og keypt gjaldeyri, keypt hlutabréf og annað.

Þó að ég virði vissulega sjálfstæði peningastefnunefndar Seðlabankans hef ég talið að eitt af því sem máli skipti væri að vaxtamunur á milli Íslands og útlanda væri sem allra minnstur, þannig að ég hef hvatt til vaxtalækkana. Fleiri aðgerðir má svo sem nefna en þessar eru þær helstu. Ég hef reyndar líka hvatt lífeyrissjóðina til þess að auka fjárfestingar sínar í útlöndum.

Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ég boði skattalækkanir. Breytingar á virðisaukaskattskerfinu fela í sér að ákveðnir hlutir eru færðir til (Forseti hringir.) og aðrir verða lækkaðir í kjölfarið. En ég mun koma að því ítarlegar í seinni hluta svars míns.