146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun.

[10:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Fyrst langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um málefni er tengjast fjármálaáætlun. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (UBK): Forseti biður um betra hljóð í salinn.)

Fyrst ber að nefna aðgerðaskort á Alþingi og hefur ráðherrann ítrekað borið því við að ef við þingmenn fáum sundurliðun skemmi það ferlið, sem er auðvitað ótrúlegt virðingarleysi gagnvart löggjafarþinginu. Hitt er öllu alvarlegra, að það ríkir alger óvissa um hvað þessi áætlun inniber. Þegar bent er á að þessi áætlun til fimm ára sé bindandi bera þingmenn stjórnar- og stjórnarliða því við að vanti eitthvað upp á kosningaloforðin hjá ríkisstjórninni gagnvart heilbrigðiskerfinu eða öðrum grunnstoðum samfélagsins sé hægt að bregðast við þeim fjárskorti í þeim málaflokkum með breytingum á fjárlögum.

Er það rétt, hæstv. fjármálaráðherra Benedikt Jóhannesson? Er þetta sveigjanlegur rammi sem hægt er að breyta frá ári til árs? Eða er þetta fimm ára áætlun sem ber að fylgja í hvívetna?

Mig langar líka að ítreka kröfur þingmanna um að fá aðgengi að sundurliðun. Í fyrsta lagi er ekki hægt að koma með breytingartillögur; segjum sem svo að verði einhver breytingartillaga hér samþykkt þá vitum við ekki hvaða áhrif það mun hafa á aðra útgjaldaliði sem tengjast fjármálaáætlun og það er mjög alvarlegt. Það þýðir að við þingmenn minni hlutans og einnig þingmenn meiri hlutans eigum mjög erfitt með að koma með ábendingar og tillögur um hvernig áætlunin eigi að líta út eftir meðferð Alþingis. Eða er það kannski þannig, hæstv. fjármálaráðherra, að þingið á ekkert að hafa með fjárlög eða útgjaldaliði ríkisins að gera? Er það einvörðungu á hendi framkvæmdarvaldsins? Ef svo er hlýtur það að vera brot á stjórnarskrá. Eða hvað finnst hæstv. ráðherra um það?