146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

styrking krónunnar og aðgerðir Seðlabanka.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég heyri að hann deilir áhyggjum mínum og fjölmargra annarra af þessari miklu styrkingu gengis krónunnar. Þetta er eins og hv. þingmaður segir réttilega, súrsætt. Neytendur fagna því auðvitað þegar vörur frá útlöndum verða ódýrari, en það getur komið í bakið á okkur þegar að því kemur að fyrirtækjunum sjálfum er ógnað ef menn missa vinnuna. Sumir eru með laun sem tengjast beinlínis erlendum gjaldeyri, t.d. sjómenn.

Ég er ekki viss um að þessi aðgerð sé sú besta en ég ræð þessu hins vegar ekki. Eins og hv. þingmaður veit hefur Seðlabankinn þarna mikið frelsi, bæði við ákvörðun vaxta og í þessum inngripum. Ég hafði nú ekki heyrt af þessum kaupum á skuldabréfum en þar er tæki sem felst í bindingu á gjaldeyri sem samþykkt var á síðasta þingi og hefur reynst vel. Ég hafði hins vegar heyrt af því að erlendir aðilar væru farnir að kaupa svolítið af hlutabréfum. Það er farið að aukast.

Ég get svarað hv. þingmanni alveg ótvírætt að ég tel að vaxtamunarviðskiptin sem tíðkuðust fyrir hrunið árið 2008 hafi leitt okkur í mikla ógæfu. Þar erum við alveg örugglega sammála.