146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

brot ráðherra gegn jafnréttislögum.

[10:54]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég ætla mér ekki að leggja dóm á það hverjir skulu segja af sér við slík tilfelli. Mér fannst þetta vera mikill pólitískur leikur á sínum tíma þegar þessi umræða fór af stað. Tilgangur jafnréttislaganna í þessu samhengi er ekki að hengja einhverja poka á hið pólitíska vald hverju sinni heldur að tryggja framgang jafnréttislaganna, tryggja jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og sérstaklega hjá hinu opinbera.

Þarna er lykilatriði máls að hér eru matskennd ákvæði til grundvallar þegar verið er að meta hæfi umsækjenda og á endanum sú leið sem farin er í þessu tilfelli, að skjóta málinu til kærunefndar jafnréttismála, sem kemst að annarri niðurstöðu. Þá er auðvitað skylda og ábyrgð stjórnvalda að bregðast við með þeim hætti sem kostur er í þeirri stöðu, sem getur verið misjafnt hverju sinni. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta úrræði sé fyrir hendi, að það sé virt og nýtt þar sem þörf krefur, og það er gríðarlega mikilvægt að það nýtist okkur til að tryggja framgang jafnréttis á vinnumarkaði og sér í lagi hjá hinu opinbera. Það er þá í höndum fjármálaráðuneytisins nú að bregðast við þessum tiltekna úrskurði og hvernig taka skuli á honum. Ég hef fullt traust á því að núverandi fjármálaráðherra ásamt stjórnsýslu ráðuneytisins muni gera það á réttan og skilvirkan hátt.

Ég ítreka hins vegar að megintilgangurinn er að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði, innan stjórnsýslunnar og tryggja betra jafnvægi í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera. Að því hljótum við öll að vera sammála um að vinna.