146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

brot ráðherra gegn jafnréttislögum.

[10:58]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég ítreka enn og aftur í svari mínu við fyrirspurn hv. þingmanns að tækið er ekki til að koma pólitísku höggi á andstæðinga heldur tryggja jafnrétti innan stjórnsýslunnar og á vinnumarkaði almennt. Nú eru þingmenn stjórnarandstöðu sem áður vörðu brot á jafnréttislögum að gagnrýna og krefjast afsagnar. Staðan var öfug þegar (Gripið fram í.) aðrir voru í forystu. Það er einfaldlega pólitískur leikur sem ég nenni ekki að taka þátt í.

Jafnréttið er lykilatriðið. Það þarf að tryggja jafnrétti og framkvæmd laganna. Það er það sem skiptir öllu máli. Í þessu samhengi erum við einmitt að vinna mjög markvisst að því að styrkja stoðir jafnréttis á vinnumarkaði, m.a. með innleiðingu jafnlaunavottunar sem er til meðhöndlunar í þinginu. Ef svo reynist vera að virkni þessa ákvæðis jafnréttislaga verður ekki sem skyldi þurfum við auðvitað að horfa til þess að breyta þeim. Mér sýnist af úrskurði kærunefndar að ákvæðið virki ágætlega. (Forseti hringir.) Því er vísað aftur til framkvæmdarvaldsins að taka á þeim vanda sem þarna hefur komið upp. Það er auðvitað þá á ábyrgð þess að gera það.