146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

mannréttindi og NPA-þjónusta.

[11:02]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen þessa mjög svo góðu fyrirspurn. Það er alveg rétt að hér erum við að tala um grundvallarmannréttindamál sem færir okkur vonandi fram á veginn í baráttunni fyrir bættum réttindum fatlaðra til framtíðar. Ég held að þetta sé stórt skref sem við erum að stíga með innleiðingu NPA í löggjöfina og með því að lögfesta hér samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli fram á veginn. Ég hef lagt á það áherslu að í þessum sporum erum við í raun og veru á byrjunarreit en ekki á lokareit. Við erum að þróa hér áfram ný úrræði.

Verið hefur í gangi tilraunaverkefni með NPA sem gefið hefur mjög góða raun og gefur sterkar vísbendingar um þann mikla og sterka ábata sem hlotist getur af þessu úrræði og þá miklu réttarbót sem það getur verið fyrir fatlaða einstaklinga. Þarna ber okkur hins vegar líka skylda að ráðstafa af ábyrgð þeim fjármunum sem ríkisvaldið hefur úr að spila á hverjum tíma og taka tillit til fjárhagsstöðu sveitarfélaga.

Þetta er ekki kvótasetning á NPA, heldur innleiðing hennar í áföngum á grundvelli þess mats, á þeirri þörf sem er á þessari þjónustu. Reynist sú þörf meiri er það að sjálfsögðu okkar ábyrgð og skylda að bregðast við því. En við töldum mikilvægt að halda af stað í þessa vegferð með þeim hætti sem þarna er lagt upp með þannig að það rúmaðist innan þess ramma sem okkur er settur í fjármagni, en að við værum engu að síður að stíga þessi mikilvægu skref af festu.

Það mun því ekki stranda á okkur. Reynist eftirspurnin meiri en sérfræðihópur áætlaði, sem skipaður var á sínum tíma til þess að meta þörf fyrir NPA, er það að sjálfsögðu okkar skylda að bregðast við og við munum rísa undir henni.