146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

mannréttindi og NPA-þjónusta.

[11:05]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég sé að hv. þingmaður deilir áhuga mínum á þessum málaflokki. Ég mótmæli því að það standi skrifað einhvers staðar í stefnu þessarar ríkisstjórnar að líta beri á þetta fólk sem fjárhagslegan bagga á hinu opinbera eða að hindra eigi för þess eða framgang með einhverjum hætti. Þvert á móti leggjum við áherslu á það að fjárfesta í stórbættum virkniúrræðum, innleiða starfsgetumat, fjárfesta frekar í ýmiss konar geðaðstoð, sálfræðiaðstoð og öðru þess háttar til að ráðast að rótum vandans, sem er vaxandi örorka í landinu af ýmsum ástæðum. Við getum hæglega brugðist við því og gert miklu betur, fjárfest í bættum lífsgæðum og aukinni virkni þessara hópa. Þarna held ég að afar brýnt sé að vel takist til. Ég ítreka að stefna ríkisstjórnarinnar er í mjög góðu samræmi við þær áherslur sem hv. þingmaður taldi upp.