146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurningarnar. Já, varðandi framsetninguna. Það er rétt að við erum sammála um að hún hafi verið ólíðandi eins og áætlunin kom í okkar hendur. En mér finnst nú frekar holur hljómur í að heyra stjórnarþingmann tala um að hann vilji ekki taka ákvarðanir án þess að allar upplýsingar liggi fyrir. Ef við lítum til þess að við fengum ekki sundurgreiningu á rekstri og fjárfestingum fyrr en 6. maí sl., daginn eftir að meiri hlutinn í allsherjar- og menntamálanefnd skilaði sínu áliti. Daginn eftir að meiri hlutinn í velferðarnefnd skilaði sínu áliti. Báðum þessum meiri hlutum þótti fullásættanlegt að vera algerlega blindir á inntak þeirra málefnasviða sem við vorum að fjalla um.

Og jú, ég skal viðurkenna að framsetning tillagna Vinstri grænna mætti vera betri, eins og framsetning á öllu í þessari áætlun því að hér hefur ekkert verið hugsað til enda. Hér erum við að læra á meðan við erum að gera. Það er enginn aðstaða, engin sérfræðiþekking innan þings til að bregðast við. Við þingmenn erum að giska á hvernig við eigum að setja hlutina fram. Við erum að toga með töngum út úr ráðuneytinu og þinginu aðstoð, upplýsingar, allt sem þarf til að geta sett fram vandaða fjármálaáætlun. Ég skammast mín fyrir að taka þátt í þessu ferli og vona að hv. þingmaður geri það líka. Ég vona að hæstv. ráðherra sem hér situr sjái að sér, sjái til þess að á næsta ári stöndum við ekki í þessum sporum, að ræða tillögu sem kom ónýt til þingsins og er (Forseti hringir.) stagbætt með miklum vanmætti.