146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hv. þingmaður skyldi koma inn á fjölda nemenda. Nú vitum við að verið er að fækka árum í framhaldsskólunum. Það þýðir að það kemur alda af fleiri nemendum inn í háskólastigið. Samt eru framlögin ekki nema 8,8% fram yfir stofnkostnað og því um líkt. Mig langar að velta upp þeim möguleika að hér sé ákveðin stefnubreyting sem sett er fram í tölum en ekki texta. Ég get ekki lesið það öðruvísi þegar ég skoða tölurnar og hvað þær þýða óhjákvæmilega, án þess að þær séu útskýrðar með því að hér sé um niðurskurð að ræða varðandi þá áætlun sem núverandi ríkisstjórn á að setja á núna á vormánuðum með Vísinda- og tækniráði. Vegna þess fjölda nemenda sem nú er að koma inn í háskólana, vegna þeirra launakrafna sem gefnar eru sem forsendur í fjármálaáætlun, þá þýðir þessi 8,8% hækkun niðurskurð. Það er stefnubreyting sem ekki er útskýrð.