146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég hef áhyggjur af ýmsu í þessari áætlun, þar á meðal þeim atriðum sem þingmaðurinn kemur inn á. Sú tilfinning að kasta eigi brauðmolum í stofnanir og þær að bítast um þá — ég deili henni. Ég held að stofnanir eigi mjög erfitt með að fóta sig í þessu nýja kerfi vegna þess að samráðið er ekkert milli ráðuneytis og stofnana í þessari innleiðingu. Það er verið að innleiða gerbreytta nálgun á opinber fjármál og ekki látið svo lítið að hafa stofnanirnar með í ferlinu. Þær eru einhvern veginn utan við og þurfa að horfa inn og giska á hvaðan tölurnar í áætluninni koma. Það birtist líka í því að við þurftum nánast að pína meiri hlutann til að fá að senda áætlunina til umsagnar. Það er náttúrlega fráleitt að Alþingi eigi að samþykkja áætlun um opinber útgjöld næstu fimm ára án þess að rýna almennilega í það hvernig það kemur við stærstu stofnanir landsins og mikilvægustu.

Þingmaðurinn nefndi líka markmiðasetningu, hvað hún væri misskýr og misvel framsett. Ég má til með að nefna eitt smáatriði sem dómsmálaráðuneytinu virðist hafa yfirsést, sem er að nýstofnaður millidómstóll þarf einhvers staðar að vera. Hann fær að vera í leiguhúsnæði í Kópavogi, samkvæmt bráðabirgðaákvæði við dómstólalög til ársins 2022. Að þeim lögum séðum er nokkuð ljóst að á tímabili fjármálaáætlunarinnar mun þurfa að byggja yfir dómstólinn. Sá peningur er hvergi tekinn fram í þessari áætlun. Hvað vantar marga milljarða þar?