146. löggjafarþing — 70. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:08]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð og góða ræðu. Hv. þingmaður nefnir loftslagsbreytingar, sem er líklega mikilvægasta mál samtíma okkar og inn í framtíðina og ótrúlegt að ekki sé tekið betur á því í fjármálaáætlun. Eins og hv. þingmaður nefnir réttilega skiptir gífurlega miklu máli að menntun sé í forgangi, að það séu vel menntaðir einstaklingar í þjóðfélaginu.

Ég bar fram spurningu til hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma áðan og spurði hann um áherslur og tækifæri til að fjárfesta í mannauði, í fólkinu í landinu, eða hvort fólk sem þyrfti á hjálp að halda væri bara fjárhagslegur baggi á þjóðfélaginu. Mér finnst það tvinnast dálítið saman við þetta. Á meðan það er fólk á Íslandi sem býr við skort þá er þar fólk sem hefur bara ekki getu til að líta fram á við. Það er gífurlega mikilvægt, sérstaklega þar sem Ísland er meðal ríkustu þjóða heims. Ef við getum ekki haldið vel utan um fólkið okkar þannig að það búi enginn við fjárhagslega neyð og skorti tækifæri til að sækjast eftir sjálfsögðum réttindum, getum við ekki ætlast til þess að fólk hafi getu til að horfa til framtíðar. Það er gífurlega mikilvægt. Heimurinn er að breytast. Við verðum að vinna öll saman til að takast á við þessar breytingar. Við þurfum á þessum mannauði, þessu fólki, að halda og hafa það með okkur í liði. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað henni finnst um þann vinkil.