146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:30]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir fyrirspurnina. Hún spyr hvort ég sé sammála henni um þá miklu aðhaldskröfu sem fram kemur hér og nemur milljörðum, þ.e. þá aukalegu aðhaldskröfu. Jú, ég er sannarlega sammála henni. Þrátt fyrir að við séum öll sammála því að greiða niður skuldir og að það sé af hinu góða förum við samkvæmt þessari fjármálaáætlun næstu fimm árin niður fyrir lögbundin mörk þegar kemur að niðurgreiðslu skulda. Við teygjum okkur svo langt í þeirri niðurgreiðslu að það kemur niður á hinum margumtöluðu innviðum og uppbyggingu á þeim, sem sannarlega þarf á að halda. Ef við gætum aðeins slakað á í að greiða niður skuldir ríkissjóðs — við myndum alltaf greiða þær niður, þyrftum aldrei að teygja okkur svo langt — væru til fjármunir (Forseti hringir.) til að veita í þessi aðkallandi verkefni sem svo sannarlega blasa við okkur hvert sem við komum.