146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:31]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Er hv. þingmaður sammála mér um að allir flokkar hafi talað um mikilvægi innviðauppbyggingar í aðdraganda síðustu kosninga? Finnst hv. þingmanni ekki erfitt að sjá fram á einhverja innviðauppbyggingu út frá þeirri ríkisfjármálaáætlun sem við ræðum hér? Hins vegar sjáum við 23% aukningu til sjúkrahúsþjónustu, en það gefur afar skakka mynd af stöðu mála því að þarna er verið að blanda saman byggingu á nýjum Landspítala og rekstrarkostnaði í sjúkrahúsþjónustunni. Komið hefur fram í efnislegri vinnslu í meðförum þingsins að það vanti 13 milljarða upp á að klára nýjan Landspítala og 7 milljarða til að klára endurgerð á gömlum húsbyggingum. Er hér ekki í raun um kosningasvik að ræða þar sem talað var um mikilvægi þess að bæta aðstöðu sjúklinga og starfsmanna en síðan er ekkert sett fjármagn til að klára þau verkefni sem talað var um? Er það ekki afar gagnrýnivert?