146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætissvar. Mig langar líka til að koma að sveitarfélögunum. Samband íslenskra sveitarfélaga skilaði inn viðamikilli og ítarlegri umsögn um málið. Á fundi með Ríkisendurskoðun kom m.a. fram að afkomumarkmið sveitarfélaganna sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun muni alls ekki standast. Það er vitað fyrir fram að tölurnar ganga alls ekki upp. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar sögðu að þetta væri hreinlega alveg galið að setja þetta svona fram. Hér á bls. 1 í umsögninni segir sambandið að afkomumarkmið fyrir sveitarfélög séu óraunsæ og á skjön við samþykktar fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Þau gagnrýna harðlega samráðsleysið um mótun fjárhagslegra viðmiða um afkomu og efnahag sveitarfélaga. Þetta er risastórt mál þar sem afkoma sveitarfélaga er mjög stór hluti af opinberum rekstri í dag og skiptir mjög miklu máli. Mig langar aðeins að heyra sjónarmið hv. þingmanns varðandi þetta stórkostlega mikilvæga mál.