146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leiddi hugann að því í tengslum við ræðu hv. þingmanns að við erum með uppsafnaða viðhaldsþörf, uppsafnaða framkvæmdaþörf, þörf fyrir innviðauppbyggingu og því um líkt. Hv. þingmaður nefndi að við þyrftum að auka tekjur okkar. Það er áhugavert sem kom fram í fjárlaganefnd að það að afla meiri tekna, að vera með meiri gjöld leiðir ekkert endilega til þess að það sé minna aðhald.

Þá langar mig til að spyrja: Við vitum kannski að einhverju leyti hvert er umfang viðhaldsþarfar og framkvæmdaþarfar, er óhjákvæmilegt að við verðum að afla meiri tekna? Við vitum ekkert endilega hvar við þurfum að fara í viðhald og uppbyggingu. Þótt við höfum grófa hugmynd um það er ekki komin nein góð áætlun um það. Gætum við innan núverandi ramma, ef við vissum meira, klárað þær framkvæmdir sem eru á tíma?