146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:45]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið. Svarið við síðustu spurningunni er: Ég held að við gætum það ekki miðað við núverandi ramma. Við þyrftum að auka í á tekjuhliðinni til þess að ráðast í nauðsynlegt viðhald á eignum ríkisins, vegum, skólum o.s.frv. Það er líka bent á það í umsögn fjármálaráðs, ef mér skjöplast ekki, að ónógt viðhald kostar, þ.e. það kostar að láta viðhaldið reka á reiðanum og fara ekki í nauðsynlegar viðhaldsaðgerðir því það mun að endingu kosta okkur. Ég velti því líka fyrir mér hvort hv. þingmaður sé mér sammála um að við þurfum líka að gera ráð fyrir nauðsynlegu lágmarksviðhaldi. Við sjáum hvað er að gerast með samgöngurnar og samgöngu- og vegakerfið, þ.e. viðhaldið sem hefur verið vanrækt undir hægri stjórn, bæði nú og á síðasta kjörtímabili, er að leiða okkur í ógöngur. Reikningurinn hækkar alltaf með því að láta innviði grotna niður.