146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:49]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Sú sem hér stendur kynnir umsögn 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Ég ætla að leyfa mér að lesa umsögnina að mestu leyti en bæta svo við mínum eigin orðum eftir því sem þörf krefur. Þá hefst lesturinn, með leyfi forseta:

„Að mati 3. minni hluta er stefnumörkun fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar á málefnasviðum allsherjar- og menntamálanefndar verulega ábótavant. Fyrst og fremst verður að teljast ámælisvert að fjármögnun málefnasviðanna sé ekki flokkuð niður á málaflokka hvers málefnasviðs fyrir sig heldur sé þar einungis að finna eina línu með heildarfjármögnun til sviðsins. Ólíklegt verður að teljast að slíkt fyrirkomulag standist stjórnarskrá þar sem hæpið er að Alþingi, sem fer með fjárstjórnarvaldið, geti sinni því hlutverki sínu ef fjármálaáætlun inniheldur engar nákvæmar sundurliðaðar áætlanir um fjármögnun einstakra málaflokka eða verkefna. Samþykki þingið fjármálaáætlun án þess að fá fram þær upplýsingar má leggja það að jöfnu við að Alþingi afsali sér stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu til að ráðstafa fjármunum hins opinbera.“

Nóg er um gerræði framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu í þessu landi þar sem framkvæmdarvaldið hefur óhófleg völd, m.a. vegna þess að ráðherrar sitja samtímis sem þingmenn, sem er nokkuð sem við Píratar höfum lengi talað gegn. Nú ætlum við með þessu verklagi að afhenda eitt af okkar sterkustu jafnvægistólum gagnvart framkvæmdarvaldinu, fjárstjórnarvaldið. Það hlýtur að teljast verulegt áhyggjuefni að við fáum ekki einu sinni sundurliðun niður á málaflokka til að vita nokkurn veginn hvað það er sem þingið á að kokgleypa frá framkvæmdarvaldinu í þetta sinn. En áfram heldur lesturinn, frú forseti.

„Auk þessa er augljóst að fjármálaáætlun stenst ekki kröfur laga um opinber fjármál um gagnsæi þegar sundurliðun einstakra málefnasviða og verkefna skortir eins og fram kemur í umsögn fjármálaráðs:

„Samræmd framsetning stefnumótunar er af hinu góða og sé hún formuð á einfaldan og skiljanlegan hátt þá styður hún við gagnsæi og eykur líkur á að stefnumótunin gangi eftir. En það er ekki síður mikilvægt að unnt sé að greina sameiginlegan þráð í gegnum kaflana í stefnumótun hvers málefnasviðs. Þannig ættu t.d. að vera listaðar aðgerðir til að mæta helstu áskorunum, setja þarf undirmarkmið og mælikvarða sem stuðla að því að meginmarkmið náist og gera þarf grein fyrir fjármögnun verkefna. Nokkuð vantar upp á að greina megi þráðinn í framsetningunni. Í síðasta kaflanum um fjármögnun ætti jafnframt að gera grein fyrir nýtingu þess fjármagns sem málefnasviðinu er úthlutað. Í lögunum segir að gera skuli grein fyrir nýtingu fjármagns og áherslum við innkaup en þó ber lítið á að svo sé gert. Í töflu um fjármögnun hvers málefnasviðs er aðeins ein lína með heildarfjármögnun til þess. Fjármögnun er ekki einu sinni flokkuð niður á málaflokka hvers málefnasviðs. Lítið sem ekkert er minnst á innkaup í stefnumótun málefnasviða. Það vantar því upp á gagnsæi hvað þetta varðar.“

Þriðji minni hluti tekur undir þetta mat fjármálaráðs. Að mati 3. minni hluta er ómögulegt með öllu fyrir þingið að mynda sér upplýsta afstöðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar án þess að gerð sé grein fyrir fjármögnun verkefna og að fjármögnun sé hið minnsta flokkuð niður á málaflokka hvers málefnasviðs. Án þeirrar lágmarksviðleitni fær 3. minni hluti ekki séð að þingið geti sinnt stjórnarskrárbundnu fjárveitingahlutverki sínu, né eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu.“

Þrátt fyrir þessa umsögn fjármálaráðs hafa stjórnarliðar verið duglegir að minna okkur á að þessar upplýsingar eigi ekkert að vera í fjármálaáætlun. Við eigum bara að bíða og vona að við fáum einhvers konar upplýsingar um þetta þegar líður að hausti. Það kom m.a.s. fram hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að það myndi skemma fyrir ferlinu að veita þinginu þær upplýsingar sem fjármálaráð telur næsta víst að eigi að vera í þessari fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. En alltaf er sussað á þingið sem biður um upplýsingar og okkur sagt að og það skemmi fyrir einhvers konar óvæntri uppákomu ríkisstjórnarinnar að fá að koma okkur öllum á óvart hérna í haust um hvernig þessu verður raunverulega háttað. Það get ég ekki kallað góða stjórnarhætti, frú forseti. En áfram heldur aftur lesturinn:

„Sem dæmi um skort á gagnsæi [í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar] má nefna málefnasviðið almanna- og réttaröryggi, en undir það svið heyra löggæslumál, landhelgismál, málefni ákæruvalds og réttarvörslu, réttaraðstoð og bætur sem og fullnustumál. Ómögulegt er fyrir löggjafann að átta sig á fjármögnun hvers málaflokks fyrir sig þar sem hún er ekki sundurliðuð fyrir málaflokka í áætluninni. Þó er um afar fjölbreytta málaflokka að ræða sem allir innihalda stofnanir og starfsemi sem sinna mikilvægum hlutverkum í samfélaginu. Ljóst er af lestri umsagna margra þeirra stofnana sem falla undir málefnasviðið að þær telja sig ekki geta metið hver rekstrarafkoma þeirra verður næstu fimm árin vegna þess að fjármálaáætlun inniheldur engar upplýsingar þar um. Þannig eru ríkisstofnanir að giska frekar en að meta hvort og hversu mikið fjármagn fáist í hin ýmsu verkefni sem þeim eru falin.

Umræddur skortur á sundurliðun og þar með gagnsæi í fjármálaáætlun virðist einnig vera þess valdandi að sumar stofnanir sjá sig knúnar til þess að taka afstöðu gegn öðrum stofnunum innan sama málefnasviðs til þess að styrkja stöðu sína í því óvissuástandi sem fjármálaáætlun skapar. Þannig kemur t.d. fram í umsögn frá Lögreglustjórafélagi Íslands að efling landhelgisgæslu megi ekki bitna á eflingu almennrar löggæslu í landinu. Sömuleiðis lýsir Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu yfir áhyggjum af því að aukin fjárþörf vegna fjölgunar hælisleitenda muni bitna á fjárveitingum til sýslumannsembættanna.“ — Þetta er náttúrlega algjörlega ótækt, frú forseti. Ég nota að vísu vægari orð í minnihlutaumsögn allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem ég segi, með leyfi forseta:

„Það hlýtur að teljast óheillavænleg þróun að óvissa af völdum fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar orsaki slíka árekstra innan stjórnsýslunnar.“

En það hlýtur náttúrlega að vera okkur öllum áhyggjuefni ef Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sér sig knúinn til að taka stöðu gegn hælisleitendum af því að hann viti ekki hvort hann fái nægjanlegt fjármagn til að sinna sem skyldi sínu mikilvæga hlutverki. Mér finnst við vera komin á mjög háskalegan stað þegar sú er raunin, sérstaklega hvað varðar samráð við þessar stofnanir sem mörgum hverjum var ekki gefinn nema kannski sólarhringsfrestur til að skila inn umsögn um þetta. Það er náttúrlega líka ólíðandi með öllu. Það hlýtur að gefast meiri tími en sólarhringur til að leyfa undirstofnunum þeirra ráðuneyta sem skulu sæta þessari fjármálaáætlun að skila inn umsögn til Alþingis um hvað þeim finnist um þessa áætlun, ef svo skyldi kalla.

En ég sný mér þá að einstökum þáttum fjármálaáætlunar og byrja á að ræða aðeins um dómstólana:

„Fram kemur í umsögn dómstólaráðs að ekki verði komið að fullu til móts við kröfur héraðsdómstólanna um aukið fjármagn en þar segir:

„Í afriti af bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 4. apríl sl., til fjárlaganefndar Alþingis vegna undirbúnings fjármálaáætlunar 2018–2022 kemur fram að einungis reynist vera svigrúm að hluta til þess að mæta óskum héraðsdómstólanna um auknar fjárheimildir. Þar kemur fram að stefnt sé að því að veita 50 millj. kr. á árinu 2018 til héraðsdómstólanna, m.a. til þess að standa straum af kostnaði við endurnýjun málaskrár og frágang dómskjala.

Óskir héraðsdómstólanna um auknar fjárheimildir á árinu 2018 námu hins vegar samtals tæplega 99 millj. kr. Þar á meðal var fastur launakostnaður vegna fjölgunar starfsmanna um 33 millj. kr. Endurnýjun tölvubúnaðar allra héraðsdómstólanna 11 millj. kr. og tækni- og húsbúnaðar fyrir dómsali um 22 millj. kr.“

Fram kemur á bls. 116 í fjármálaáætlun að svigrúm hennar sé ekki nægjanlegt til þess að fjármagna þessi áform.“

Nú væri gott að leggja við hlustir þar sem svigrúm fjármálaáætlunar verður leiðarstef í þessari umsögn minni, sérstaklega er snýr að dómstólum, en fjármálaáætlun virðist ekki hafa svigrúm fyrir nokkurn skapaðan hlut. Það kemur sem sagt fram að svigrúm fjármálaáætlunar sé ekki nægjanlegt til þess að fjármagna áform um að tryggja betri húsbúnað, tryggja launakostnað vegna starfsmanna, standa að endurnýjun tækni- og húsbúnaðar og tölvubúnaðar allra héraðsdómstólanna. Þó hefur nú verið tekið fram að það þyki einkar mikilvægt fyrir stofnun Landsréttar að tölvubúnaður og annað slíkt verði komið í gott horf til að þessir dómstólar geti átt gott samstarf, þ.e. Landsréttur og héraðsdómstólarnir. Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar virðist einmitt vera allsráðandi þegar kemur að eflingu dómsvaldsins því að á sömu blaðsíðu, sem sagt bls. 116, kemur einnig fram að svigrúm fjármálaáætlunar sé ekki nægjanlegt til að fjármagna hin ýmsu verkefni og áform sem liggur fyrir að þarfnist nauðsynlega úrlausnar á tímabilinu.

„Eftirfarandi eru dæmi um verkefni og áform sem fjármálaáætlun nefnir sem nauðsynleg til að styrkja starfsemi dómstólanna:

Að ráðast í gerð nýrrar málaskrár fyrir héraðsdómstigið sem styðji við rafræna málsmeðferð og rafræna sendingu gagna milli dómstóla sem og áðurnefnda endurnýjun húsbúnaðar, tölvubúnaðar starfsmanna, hugbúnaðar og tækja í dómsölum en svigrúm fjármálaáætlunar er ekki nægjanlegt til að fjármagna þessi áform.

Þá er tilgreint að helstu áskoranir dómstólasýslunnar verði að koma á fót nýrri stofnun sem verði í stakk búin til þess að takast á við ný og umfangsmikil verkefni. Um þau áform segir í fjármálaáætlun á bls. 116:

„Nauðsynlegt er að hjá dómstólasýslunni starfi fólk sem hefur þekkingu og menntun til að sinna þeim lögbundnu verkefnum og skyldum sem stofnuninni er ætlað að bera ábyrgð á. Fyrir fram má telja æskilegt að þar starfi lögfræðingur, fjármálastjóri, upplýsinga- og skjalastjóri og tölvunarfræðingur.“ — Svo kemur aftur þetta kunnuglega leiðarstef:

„Svigrúm fjármálaáætlunar er ekki nægjanlegt til að fjármagna slík áform.“

Um stofnun nýs dómstigs er fjallað í fjármálaáætlun og greint frá því á bls. 117 að því fylgi fjölgun dómara úr 52 í 64 og að fjárhagsleg áhrif nýrrar dómstólaskipanar séu metin á um 700 millj. kr. á ári eða sem nemur um 35% aukningu til málefnasviðsins árið 2018. Af þeim sökum er það talið brýnt fyrir dómstigin þrjú auk ákæruvalds, lögreglu og fullnustustofnana að koma sameiginlega á rafrænni málsmeðferð þar sem unnt verði að senda skjöl og önnur gögn, t.d. hljóð- og myndaskrár, á milli dómstóla og annarra í réttarvörslukerfinu, þar á meðal til lögmanna. Fjármálaáætlun tilgreinir að til þess að mæta þeirri áskorun þurfi héraðsdómstólar að uppfæra málaskrá sína og koma upp skýrslutökubúnaði í hljóði og mynd til spilunar í Landsrétti og Hæstarétti þrátt fyrir að á bls. 116 komi fram að svigrúm fjármálaáætlunar sé ekki nægjanlegt til að fjármagna þessi áform.

Misvísandi framsetning af þessu tagi er ekki til þess fallin að auka trúverðugleika fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar sem virðist gefa á einni blaðsíðu en taka á annarri. Ómögulegt er með öllu að átta sig á hvernig framtíð réttarvörslu á Íslandi verður háttað af lestri fjármálaáætlunarinnar. Þá gildir einu þótt klórað sé í bakkann með því að vísa í að til standi að vinna dómstólaáætlun í samvinnu ráðuneytisins og dómstóla, þar sem fram munu koma markmið, mælikvarðar og aðgerðir tengdar dómstólum enda ættu þær með réttu að koma fram í fjármálaáætlun einnig.

Að framansögðu virtu er ógerningur fyrir 3. minni hluta að mynda sér upplýsta afstöðu um það hvernig staðinn verður vörður um sjálfstæði og virkni dómstóla á landinu næstu fimm árin. Þó verður að teljast í hæsta máta óvenjulegt að telja upp fjöldann allan af meintum nauðsynlegum verkefnum og áskorunum dómstólanna og lýsa því svo yfir í kjölfarið að ekki sé svigrúm til þess að fjármagna verkefnin né viðbrögð við áskorunum. Framtíð réttarverndar á Íslandi er 3. minni hluta því verulegt áhyggjuefni.“

Snúum okkur að löggæslu, frú forseti:

„Í 9. kafla um almanna- og réttaröryggi er því haldið fram að fjölga eigi lögreglumönnum á tímabilinu. Þó kemur hvergi fram í áætluninni um hversu mörg stöðugildi sé að ræða né hvenær umrædd fjölgun verði. Hins vegar kemur eftirfarandi fram í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu:

„Í kafla frumvarpsins um aðhaldsforsendur á bls. 56 kemur fram að gengið er út frá 2% veltutengdu aðhaldi á árinu 2018. Einnig segir að gert sé ráð fyrir árlegum aðhaldsmarkmiðum. Miðað við veltu embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu má því reikna með að fækka þurfi um 6–8 stöðugildi lögreglumanna strax á næsta ári til að mæta um 90 millj. kr. aðhaldskröfu og reikna má samkvæmt þessu með fækkun lögreglumanna á hverju ári. Þetta er úr takt við þá fullyrðingu frumvarpsins að fjármögnun löggæsluáætlunar sé tryggð (bls. 65) en í kafla 9 (bls. 174) þar sem fjallað er um löggæsluáætlun er ekki minnst á fækkun lögreglumanna.“

Af framansögðu fæst ekki séð hvernig fjármálaáætlun geri ráð fyrir fjölgun lögreglumanna á tímabilinu og dagljóst að lögreglumönnum verður ekki fjölgað um 200, líkt og ríkislögreglustjóri bendir á að sé nauðsynlegt til þess að tryggja viðunandi löggæslu og öryggisstig í landinu. Óviðunandi er með öllu að markmið ríkisstjórnarinnar um fjölgun lögreglumanna komi ekki skýrt fram í áætluninni og að þess í stað sé þar mjög misvísandi upplýsingar að finna.“

Hvað varðar ákæruvaldið kemur fram „í fjármálaáætlun á bls. 178 að búist sé við auknu álagi á embætti ríkissaksóknara á tímabili áætlunarinnar. Það komi m.a. til vegna fjölgunar og aukinnar þyngdar mála vegna breytts og flóknara brotamynsturs, aukinnar áherslu á alþjóðlegt samstarf og eftirlits- og stjórnunarhlutverks ríkissaksóknara, m.a. með hlustunum og sérstökum rannsóknaraðgerðum. Yfirlýst markmið fjármálaáætlunar er einnig að auka málshraða og meðferð mála hjá ákæruvaldinu. Þá er vikið að því í áætluninni að með tilkomu nýs dómstigs, Landsréttar, muni álag á embætti ríkissaksóknara aukast til muna. Þrátt fyrir þessar viðamiklu áskoranir og aukið álag inniheldur fjármálaáætlun hvorki mælikvarða né viðmið til þess að meta hvernig gengur að takast á við fyrirhugaðar breytingar. Þá kemur fram að einungis eigi að bæta tveimur saksóknurum við embætti ríkissaksóknara á tímabilinu þrátt fyrir að til standi að setja á fót nýtt dómstig sem ríkissaksóknari þurfi að sinna ásamt öðru. 3. minni hluti telur óásættanlegt með öllu að starfsemi einnar grunnstoðar réttarríkisins á Íslandi sé teflt í jafn mikla tvísýnu og fjármálaáætlun gefur til kynna að verði.“

Svo við snúum okkur að fullnustumálum kemur fram í fjármálaáætlun eftirfarandi sjónarmið ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„„Með innleiðingu fjölskylduleyfa og auknu fjármagni í félags- og sálfræðiráðgjöf innan fangelsanna munu dómþolar vonandi aðlagast betur að samfélaginu eftir að fangelsisvist lýkur og ítrekun brota þannig síður líkleg.“

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin voni að dómþolar aðlagist betur að samfélaginu með tilkomu aukins fjármagns til félags- og sálfræðiráðgjafar í fangelsum er fjölgun stöðugilda sálfræðinga eða félagsráðgjafa ekki að finna í markmiðasetningu málefnasviðsins né sem viðmið. Einungis er tilgreind sú aðgerð á bls. 188 að efla eigi sálfræði- og meðferðarúrræði í fangelsum, sem hlýtur að teljast markmið en ekki aðgerð án frekari skýringa.

Markmið ríkisstjórnarinnar um að stuðla að farsælli aðlögun dómþola að samfélaginu virðist því einvörðungu eiga að mæla með tölum um endurkomutíðni í fangelsin en 3. minni hluti hefur efasemdir um að sá mælikvarði sé yfir höfuð marktækur. Vísað er til þess að endurkomutíðni í fangelsin sé í dag um 24% án þess að heimild fyrir þeirri staðhæfingu sé tekin fram í meginmáli áætlunarinnar. Þó kemur fram í neðanmálsgrein að um sé að ræða „norrænar samanburðarrannsóknir á endurkomutíðni“. 3. minni hluti telur að með því sé verið að vísa í skýrslu sem gefin var út árið 2010 sem byggist á endurkomutölum frá árinu 2005 þótt ekki sé hægt að slá því föstu þar sem nákvæma tilvísun vantar í fjármálaáætluninni. Sé sú raunin verða það þó að kallast forkastanleg vinnubrögð að vísa í 12 ára gamla tölfræði til þess að lýsa stöðu mála hvað varðar endurkomutíðni árið 2016, eins og gert er í markmiðasetningu málaflokksins á bls. 187. Þá er það til marks um metnaðarleysi stjórnvalda í þessum efnum að viðmiðum ársins 2022 er einfaldlega lýst sem svo að lækka eigi endurkomutíðni undir 24%“ sem er staðan í dag.

„Af framansögðu verður ekki ráðið hvernig ríkisstjórnin hyggst minnka endurkomutíðni né stuðla að farsælli aðlögun dómþola að samfélaginu að afplánun lokinni og því er erfitt að sjá hvernig markmiðum laga um fullnustu refsinga þess efnis verði náð.“

Mig langar að koma aðeins inn á þetta, frú forseti. Mér þykir sú stefna sem sést í þessari fjármálaáætlun um betrun og betrunarstefnu eins og er í raun kallað hér fullnustumál, einkennast af refsistefnu, reiðareksstefnu og algjöru metnaðarleysi. Hér er talað um að einhvern veginn eigi að fjölga meðferðarúrræðum, fjölga sálfræðingum og vonast er til að einhvern veginn muni það bæta aðstöðu fanga á Íslandi meðan við gætum verið til fyrirmyndar úti um allan heim með hvernig við sinnum okkar mjög svo smáa refsiréttarkerfi og gætum haft betrunarstefnuna að leiðarljósi. Hana er ekki hér að finna. Hvað þennan málaflokk varðar er engin mælanleg og mannúðleg markmið að finna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem er miður.

Mér sýnist ég vera að brenna inni á tíma, frú forseti, þannig að núna læt ég mér nægja að tala um persónuvernd þótt ég eigi nokkra kafla eftir í umsögn minni. Ég verð bara að taka þá í annarri ræðu en hvað varðar persónuvernd, sem er okkur Pírötum að sjálfsögðu töluvert hugleikin, kemur fram:

„Í fjármálaáætlun er vikið nokkuð ítarlega að því að hlutverk Persónuverndar muni breytast til muna með tilkomu nýs regluverks á sviði persónuverndar sem kemur til framkvæmda í Evrópu í maí 2018. Reglugerðin felur í sér umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á þessu sviði í 20 ár og munu þær hafa áhrif á fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga.

Regluverkið felur í sér aukin réttindi einstaklinga en samhliða þeim eru fjölmargar nýjar skyldur og kröfur lagðar á þá aðila sem vinna með persónuupplýsingar. Innleiðing reglugerðarinnar mun því fela í sér að hlutverk Persónuverndar verður miklu víðtækara en áður, leiðbeiningarskylda stofnunarinnar eykst ásamt aukinni alþjóðlegri samvinnu sem felur í sér nauðsyn á víðtækum breytingum á starfsaðferðum og aðbúnaði Persónuverndar en stofnunin hefur löngum verið vanfjármögnuð. Raunar hefur Persónuvernd verið svo illa stödd fjárhagslega að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur tilkynnt íslenskum stjórnvöldum að hún telji sjálfstæði Persónuverndar ekki nægilega tryggt“ sem hlýtur að vera okkur öllum áhyggjuefni.

„Þrátt fyrir þessar viðamiklu breytingar og þörf fyrir stóraukin fjárútlát til handa Persónuvernd telur stofnunin að hið minnsta 100 millj. kr. vanti upp á til þess að hún geti sinnt lágmarkskröfum hins nýja umhverfis með löglegum hætti. Hlýtur það að teljast verulega ámælisverð og hættuleg þróun varðandi þau mannréttindi sem eiga hvað mest undir högg að sækja á upplýsingatækniöld, en það er friðhelgi einkalífsins í stafrænum heimi og getur 3. minni hluti ekki annað en mótmælt þessu fjársvelti harðlega.“

Ég verð að koma að afgangnum af umsögn minni í seinni ræðu, frú forseti.