146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Víkjum að löggæslunni og stefnumótun og til hvers við gerum langtímaáætlanir. Á 141. löggjafarþingi lagði innanríkisráðherra fram áfangaskýrslu um störf nefndar um grundvallarskilgreiningar á löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Hún var samþykkt. En í þeirri fjármálaáætlun sem hér um ræðir er enga skilgreiningu að finna á mannafla og fjárþörf lögreglu. Ríkislögreglustjóri, ásamt fleirum, gagnrýnir þetta og segir í umsögn sinni frá 26. apríl sl. að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni í fjármálaáætluninni til að fjölga lögreglumönnum sem þörf er á. Ríkislögreglustjóri talar um að lögreglan muni eiga erfitt með að standa undir þjónustu- og öryggisstigi í samræmi við lögbundið hlutverk. Hér er um fjármálaáætlun til næstu fimm ára að ræða, við erum með skýrslur og stefnur og alls konar áætlanir liggja þarna að baki. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé rétt (Forseti hringir.) að nýta slíka vinnu þegar við vinnum langtímafjármálaáætlun fyrir næstu fimm árin.