146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega er það rétt að nýta eigi vinnu sérfræðinga og þingsins til gerðar fjármálaáætlunar, sérstaklega þegar kemur að jafn mikilvægu máli og löggæslunni í landinu. Þetta er kannski bara enn eitt dæmið um þá vanvirðingu sem þinginu er stöðugt sýnd með því að vinna þess í alls konar málum er virt að vettugi við næsta mál. Það er eins og einhver áætlun sé lögð fram og hverfi svo bara í eitthvert tóm þar sem hún skiptir ekki lengur neinu máli og er ekki sett í samhengi við stærra vandamál. Við vitum alveg að við þurfum að efla löggæsluna talsvert meira en fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir, vitum það einfaldlega vegna fjölda þeirra sem koma hingað á hverjum degi og með sífellt auknum fjölda ferðamanna. Auðvitað þurfum við að styðja betur við löggæsluna. Auðvitað eigum við að nota fagleg gögn og þá miklu vinnu sem unnin hefur verið á undan þessari áætlun til að bregðast við eins og gera þarf og komist hefur í ljós.