146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:15]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni þar sem hún gagnrýndi það ógagnsæi sem væri meðal annars í þessari ríkisfjármálaáætlun og að nefndir Alþingis hefðu ekki fengið upplýsingar eða sundurliðun á þeim markmiðum og meginmálefnum sem heyra undir málefnasviðin. Ég vil líka taka undir með henni að þetta, hversu ógagnsætt þetta er, rýrir mjög eftirlitshlutverk Alþingis.

En það sem mig langar til að spyrja hana um er greiðsluþátttökukerfið — ég er nú í velferðarnefnd Alþingis og þverpólitísk sátt var á síðasta kjörtímabili um að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga — hvort hún sé ekki sammála mér um að við þurfum að sjá skýrari og gagnsærri skref um hvernig við þurfum að halda áfram á þeirri leið, það sé ekki nóg að segjast ætla að lækka það, hvernig eigi að gera það.