146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:21]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur kærlega fyrir hennar ræðu og hlakka til að heyra afganginn í næstu ræðu. Það voru atriði sem vöktu athygli mína í ræðunni sem ég hefði áhuga á að heyra þingmanninn fjalla aðeins betur um og hver hennar sýn hefði verið ef hún hefði verið höfundur að þessum köflum. Það snýr sérstaklega að föngum. Það sló mann eilítið þegar fulltrúar Fangelsismálastofnunar komu fyrir nefndina hvað litlir fjármunir virtust ætlaðir í afplánun fanga í fjármálaáætlun. Jafnframt kom fram hversu fáar krónur ættu að geta gert mikið og bent var sérstaklega á að það þyrfti ekki háa upphæð til t.d. að styðja við starfsemi Verndar sem hefur skipt miklu máli til að auðvelda föngum að komast aftur inn í samfélagið eftir afplánun. Spurningin snýr að þessu. (Forseti hringir.) Á hvaða máta hefði þingmaðurinn viljað sjá aðgerðir eða tillögur með öðrum hætti í þessum málaflokki, fangelsisdómum, en hér kemur fram?