146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki viss um að ég gæti samið eitthvað innan ramma þeirrar spennitreyju sem fjármálastefna ríkisstjórnarinnar setur þessu apparati. En fengi ég að ráða og væri alvaldur í ríki mínu mundi ég fara að dæmi Norðmanna, hvernig þeir hafa sett upp sitt betrunarkerfi, ef fremur mætti kalla það svo en refsivörslukerfi enda finnst mér orðið svolítið úrelt að tala um það. Það er ýmislegt sem verður alla vega að bæta úr hið snarasta. Í fyrsta lagi er alla jafna ekki læknir á vakt í nýja lokaða fangelsinu okkar á Hólmsheiði. Við þurfum að stórauka fjölda þeirra sálfræðinga, félagsfræðinga og annarra sérfræðinga sem geta aðstoðað einstaklinga við að koma betra skikki á sitt líf ef þeir lenda í refsivörslukerfinu. Við þurfum líka að fjárfesta í einhverju öðru en lokuðu fangelsi. Ef það er nýsköpunin í betrunarkerfinu, sem virðist vera, (Forseti hringir.) þá er ég frekar svartsýn á að við stefnum á betrun.