146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég tek undir með hv. þingmanni. Það er verulegt áhyggjuefni hversu lítill peningur er settur í þennan mikilvæga málaflokk. Það gagnast samfélaginu öllu að við hugsum vel um þá sem hafa orðið utangátta í samfélaginu og enda inni í þessu svokallaða refsivörslukerfi. Það er með miklum ólíkindum hvernig er komið fram við fanga þessa lands á margvíslega vegu. Nú þekki ég t.d. dæmi þess að fangar sem koma inn í fangelsin í mikilli neyslu fá uppáskrifaðan staðlaðan skammt sem er eins handa öllum til þess að vinna gegn viðbrögðum við fráhvörfum. Þrátt fyrir það eru þetta mjög sterk lyf. Þau eru ekki til þess gerð að það sé bara einn skammtur fyrir alla heldur þarf læknir stöðugt að fylgjast með. Þess í stað er enn talað um og er enn gert að fangar fái svokallaðan rónaskammt þegar þeir koma inn í fangavörslukerfið. Það er ólíðandi. Það er liður í þessu vandamáli, það er ekki nægileg virðing borin fyrir þessum manneskjum og kannski þess vegna (Forseti hringir.) ekki settur nógu mikill peningur í að vernda velferð þeirra.