146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi míns máls nefna það að ég ætla að reyna að fara yfir þetta stóra mál í aðalatriðum og ef mér vinnst tími til ætla ég að fara ofan í umsögn mína sem meðlimur í atvinnuveganefnd sem við sendum til fjárlaganefndar.

Eins og mun heyrast fljótlega á máli mínu í dag þá er ekki mjög margt sem ég get séð jákvætt við þessa fjármálaáætlun. Ég vil þó taka undir með meiri hluta fjárlaganefndar þar sem hann fer yfir í nokkru ítarlegu máli um skort á tölulegum upplýsingum, framsetningu og ýmsu öðru sem betur má fara og við þurfum að bæta í framtíðinni. Að hluta til er þetta auðvitað vegna þess að tími hefur ekki verið nægur fyrir ríkisstjórnina, stutt síðan hún tók við, og vegna þess að þetta er í raun og veru fyrsta sinn sem við leggjum þetta fram heildstætt í kjölfarið á kosningum í upphafi kjörtímabils. En það kemur fleira til. Það er einfaldlega þannig að hjá mörgum ráðuneytum er allt of mikið af markmiðum og þau eru ófjármögnuð. Það eru engar tölur um það hvernig eigi að ná þeim, engar áætlanir. Það er ekki hægt að ræða um stefnumörkun í málaflokkum eða málefnasviðum ef það er einungis fagur texti á blaði um hvað skuli gera á næstu fimm árum, hugsanlega sett fram hvenær verkefnið eigi að hefjast eða því eigi að ljúka, en ekki er síðan stafkrókur um hvaða fjármuni eigi að nota í þessi markmið. Þegar markmiðin eru mörg þá er mjög erfitt fyrir okkur þingmenn að ræða stefnumótun af einhverju viti. Þess vegna tek ég undir með meiri hlutanum og tel að á þessu þurfi að gera verulega bragarbót.

Gagnrýni mín á fjármálaáætlunina gengur auðvitað út á margt. Hún hefst í raun og veru á þeim punkti sem settur var í umræðunni um fjármálastefnu. Hér er mikilvægasta málið, sagði hæstv. fjármálaráðherra, og meðfylgjandi fjármálaáætlun. Mikilvægasta mál kjörtímabilsins, ríkisstjórnarinnar. Þegar við vorum að ræða fjármálastefnuna, var sagt: Það verður auðvitað ítarleg umræða um fjármálaáætlunina. Þar verður hin ítarlega umræða um stefnumörkunina, um stefnumótunina og við erum að færa umræðu frá haustinu um fjárlögin yfir á þennan tíma nú. Það var meiningin með lögum um opinber fjármál. Núna eigum við að taka umræðuna um það hvernig markmið ríkisstjórnar rúmast innan fjármálastefnu, hvernig hún ætlar að koma þeim í framkvæmd og hvort þau séu skynsamleg, hvort þau séu í samræmi við aðrar áætlanir sem taka hugsanlega til lengri tíma eins og samgönguáætlun, eða ýmsar aðrar áætlanir sem eru samþykktar hérna í salnum. Það er nefnilega hjá löggjafanum sem þessi umræða á að fara fram. Framkvæmdarvaldið leggur fram fjármálastefnu. Hún var samþykkt illu heilli fyrir nokkru, síðan kemur fjármálaáætlun og þá eru það við þingmennirnir, bæði þeir sem sitja í meiri hluta og minni hluta, sem tökum umræðu um stefnumótunina, um stefnumörkun.

Þessi umræða fer ekki fram núna vegna skorts á tölulegum upplýsingum, vegna skorts á framsetningu, en líka vegna þess að hér tala ekki stjórnarþingmenn um stefnumótun. Þegar við förum í gegnum meirihlutaálit ólíkra nefnda þá er þar gagnrýnt fjölmargt, ekki síst hjá meiri hluta fjárlaganefndar. Eiginlega svo margt að upphaflegt plagg framkvæmdarvaldsins stenst enga skoðun. Það er allt í lagi. Það er akkúrat hér sem þessi umræða á að fara fram. Meiri hlutinn er búinn að fara yfir það og segja: Þetta er ekki nógu gott, við þurfum að laga þetta og þetta þarf að vera svona. Þeir henda stærstu breytingunni, virðisaukaskattshækkuninni á gistingu í ferðaþjónustu, og segja að það eigi að taka upp komugjöld, eða í það minnsta að skoða það. Svo koma þingmenn hér í ræður og forðast að taka skýra afstöðu til þess sem þeir þó hafa skrifað í umsagnir. Hvernig ætlar þá þingið að afgreiða þessa áætlun sem er plagg löggjafans sem framkvæmdavaldið fer eftir?

Með fjárlagafrumvarpinu sjáum við síðan útfærsluna hjá einstökum ráðuneytum, þá átti umræðan að vera minni. En ég óttast að umræðan verði mjög mikil í fjárlögunum í haust og hún verði nákvæmlega eins og hún hefur oft verið áður; um einstaka hluti, jafnvel smáa, vegna þess að þessi umræða fer ekki fram hér. Þessi punktur er mín mikilvægasta gagnrýni. Það er einmitt núna sem löggjafinn á að segja sitt. En stjórnarmeirihlutinn heykist á því. Hann skrifar það í umsagnir en stendur síðan ekki við það, hvorki með breytingartillögum né heldur í ræðustól þó svo að við höfum kallað eftir því þegar fulltrúar hans koma í ræður, sem betur fer, sem er breyting frá fjármálaáætluninni þar sem þeir forðuðust að mæta í pontu.

Annað sem ég benti ítrekað á í umræðu um fjármálastefnuna er tækifæri til uppbyggingar, eins og við Framsóknarmenn höfum sagt og undir það hafa auðvitað margir tekið, til að mynda fjármálaráð. Það hefur sagt: Það þarf hugsanlega meira aðhald, en það er líka fullt af vantöldum tekjum, einskiptistekjum, arðgreiðslum, sala á eignarhlutum. Við vitum í raun og veru ekki hver niðurstaða ársins verður. Fjármálaráð bendir á að fjármálastefnan hafi sniðið of þröngan stakk ef eitthvað fer að gerast og veldur því að hagvöxtur verður ekki 5, 6 og 7% á næstu árum.

Við Framsóknarmenn höfum sagt: Nú er kjörið tækifæri til þess að fara í uppbyggingu án þess að skapa þenslu þar sem hagvöxturinn er ekki alls staðar 5, 6, 7%. Víða úti á landi er hann kannski 1, 2, 3%. Við höfum lagt til að hugsanlega verði dregið úr hraðanum við að greiða niður skuldir og nota fjármuni í það, vegna þess að við vitum að við erum að fá inn miklu meiri tekjur, við munum skila miklu meiri afgangi til þess að greiða niður skuldir. Um þetta virðist stjórnarmeirihlutinn vera sammála í mörgum af sínum meirihlutaálitum ýmissa nefnda en hann leggur ekki fram neinar breytingartillögur um þetta.

Í áætlunum ráðuneytanna eru allt of mörg markmið. Við þekkjum það á umræðu frá öðrum löndum þar sem þessi aðferðafræði hefur verið tekin upp að þar hefur orðið sú breyting að fækka markmiðum í ráðuneytum úr 200, 300 niður í kannski 30. Umræðan verður auðvitað gáfulegri ef við erum bara með þrjú, fjögur markmið í hverju ráðuneyti en ekki 10, 20, 30 og jafnvel fleiri. Ofan í þetta í fjármálastefnunni á að skila 1,5% afgangi og sníða mjög þröngan stakk, ekki koma með nægilega fjármuni inn í uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, bara steypu að einhverju leyti, ekki inn í háskólakerfið heldur bara steypu, og taka peninga úr framhaldsskólakerfinu og beina inn á háskólastigið með steypu, þar á að byggja hús fyrir aukninguna, og ofan í allt þetta er sett 2% aðhaldskrafa á hvert ráðuneyti. Í umræðum í nefndunum um þessa áætlun um aukningu, þegar ráðherra og ráðuneyti komu fyrir nefndirnar, þá gátu þeir ekki svarað því hvernig þeir ætluðu að fjármagna mikilvægar stofnanir sem hafa verið undirfjármagnaðar, til að mynda í atvinnuveganefnd um Hafrannsóknastofnun. Það á að setja sérstaka áherslu á Hafrannsóknastofnun. Á þá að taka það fé frá Matvælastofnun sem er líka í þessu sama ráðuneyti? Á sama tíma og fjármálaáætlun var lögð fram var nýkomin fram skýrsla þar sem sagði að það vantaði stórfellda fjármuni til að Matvælastofnun gæti staðið undir lögbundnum verkefnum sínum.

Það er því mjög erfitt fyrir okkur að segja annað en að þetta sé ómögulegt, vegna þess að við getum ekki tekið málefnalega, gáfulega umræðu þegar vantar bæði tölulegar upplýsingar og skýrari markmið frá ráðherrunum. Það vil ég líka gagnrýna.

Ég hef svolítið áhyggjur af því að við séum í tilraun og ég verð að segja ykkur alveg eins og er, þingmenn í þessum sal, að þrátt fyrir að við höfum öll verið á því að þetta væri skynsamlegt þá er ég mjög hræddur um að við séum á brothættri braut. Þegar menn segja að það sé búið að taka of mikið vald af þinginu, fjárveitingavaldinu, og það standist jafnvel ekki stjórnarskrá, þá verðum við auðvitað að velta fyrir okkur hvernig við eigum að spyrna við fótum. Það er akkúrat í umræðunni um fjármálaáætlun sem við eigum að spyrna við fótum. Það er núna sem við eigum að taka þessa umræðu um hvað á að gera og hvernig á að leiða.

Við þurfum að mínu mati að koma þessum skilaboðum mjög skýrt út í samfélagið um þá stefnumörkun sem hér er lögð fram af framkvæmdarvaldinu og stimpluð af stjórnarþingmönnunum. Áður sögðu allir þegar við vorum að ræða fjármálastefnuna að þetta væri mikilvægasta málið, fjármálaáætlunin, afleiðing fjármálastefnunnar, jafn mikilvægt mál. Núna segja einstakir stjórnarþingmenn úr þessum ræðustól, ég hlustaði á þó nokkra þeirra hér í gær: Þetta er nú bara stefnumörkun. Þar af leiðandi eru þeir að segja að álitin sem þeir gefa úr sínum nefndum séu ekki endilega þess eðlis að það muni verða farið eftir þeim. Með öðrum orðum, við vitum ekki hvaða skilaboð stjórnarmeirihlutinn er að senda framkvæmdarvaldinu. Það er akkúrat núna sem það á að gerast. Núna á löggjafinn að senda framkvæmdarvaldinu skýr skilaboð um fimm ára fjármálaáætlun samkvæmt hugmyndinni um opinber fjármál.

Það er til önnur leið. Það hlýtur að vera hægt að byggja upp innviði á Íslandi í þeirri uppsveiflu sem við höfum búið við á undanförnum og á sama tíma haft aðhald í ríkisrekstri og þannig skapað áframhaldandi jákvæðan hagvöxt, án þess að lenda í efnahagslegum ógöngum vegna of mikils hagvaxtar, of mikillar styrkingar íslensku krónunnar, of hárra vaxta. Við Framsóknarmenn viljum kalla þetta B-leiðina. Við viljum kalla þetta leið hins blandaða hagkerfis. Við segjum um þá kreddu sem ríkisstjórnin leggur hér með á borðið um að nú þurfi gríðarlegt aðhald og það megi alls ekki fara í neina uppbyggingu að þetta sé hægri kredda, hún sé röng og hún muni leiða til mjög alvarlegra hluta.

Við tókum umræðu fyrr í dag undir liðnum óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra um gengi og vexti. Ég gagnrýndi það harðlega í minni ræðu um fjármálastefnuna að þar stóð nánast ekkert um þennan alvarlegasta efnahagslega vanda sem steðjar að okkur, þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, sem eru okurvextir og stöðug styrking íslensku krónunnar. Fyrir vikið er mjög lítið ef nokkuð í umsögnum og álitum meiri hlutans um akkúrat þessa þætti. En þetta eru þeir lykilþættir sem skora okkur á hólm gagnvart því hvernig við ætlum að lenda mjúkri lendingu, hvernig við ætlum að viðhalda hagvexti eins lengi og hægt er. Hann hefur staðið í sjö ár sem við Framsóknarmenn viljum auðvitað gjarnan þakka okkur fyrir að einhverju leyti, að hafa náð frábærum árangri á síðasta kjörtímabili með margt, en það er eftir að byggja upp innviðina. Við hljótum að þurfa að fara í það núna.

Í nefndaráliti meiri hlutans um fjármálastefnuna stendur, með leyfi forseta:

„Til þess að stuðla ekki að enn meiri þenslu og styðja við peningamálastefnu Seðlabanka Íslands þarf ríkið að forgangsraða fjárfestingum sínum með þeim hætti að ekki verði hætta á ofþenslu á sama tíma. Til þess eru margar leiðir.“

Þá getur maður spurt: Hvaða leiðir? Hv. formaður fjárlaganefndar og hv. þingflokksformaður Viðreisnar ræddu það í gær að til væru aðrar leiðir. Ég gat ekki betur séð þar sem þau skrifa nú bæði undir meirihlutaálitið þar sem fjármálaáætlunin er gagnrýnd í einum tólf liðum að þau séu sammála um að það sé hægt að fara aðrar leiðir til að mynda í því að búa til tekjur varðandi ferðaþjónustuna og að það sé hægt og það sé nauðsynlegt að fara í innviðauppbyggingu. Hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, var hér í gær og taldi nauðsynlegt að það þyrfti að fara í stórkostlega uppbyggingu í löggæslu og samgöngum.

Ég held að það sé nauðsynlegt að gera það sem stjórnarþingmennirnir eru sammála um, að greina hvar þensluáhrifin eru. Þar sem þensluáhrifin eru lítil verði farið í framkvæmdir, þar verði farið í að byggja upp og nýta tækifærið. Það hefur aldrei verið betra. En þá verða stjórnarþingmennirnir að hætta að tala um að þetta sé bara stefnumörkun. Þá verða þeir að þora að leggja fram breytingartillögur. Þá verða þeir að sýna fram á að þeir standi saman um að segja framkvæmdarvaldinu hvernig hlutirnir eigi að vera. Hin augljósa afleiðing af því að þeir gera það ekki og forðast að tala með skýrum hætti er sú að meiri hlutinn stendur ekkert saman um nokkurn skapaðan hlut. Ríkisstjórnin er ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut. Hæstv. fjármálaráðherra er einn orðinn eftir í að hækka virðisaukaskattinn á gistingu í ferðaþjónustunni. Það er enginn annar sem styður hann í því. Þingmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, fyrir utan þingflokk Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið á móti þessu meira og minna frá upphafi, en hinir sem þó eru í liði og flokki með hæstv. fjármálaráðherra skrifa upp á meirihlutaálit fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar um að það skuli fara aðrar leiðir og þær skuli skoðaðar, til að mynda komugjöld.

Á þingi í dag var dreift frumvarpi til laga um náttúrugjöld, þar sem fyrsti flutningsmaður er sá sem hér stendur og nokkrir aðrir góðir Framsóknarmenn eru á málinu. Hér er komið fram frumvarp um að leggja á komugjöld, brottfarargjöld, og breytingu á gistináttagjaldi. Kannski vill meiri hlutinn bara taka þetta og skoða.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í Kastljósi fyrir nokkrum dögum að ef menn settu á komugjald þá þyrfti það að vera 6–7 þús. kr. og yrði landsbyggðarskattur vegna þess að það þyrfti að leggja það líka á innanlandsflugið. Ég veit ekki hvaðan hann hefur þær upplýsingar. Ég veit ekki hvort hann hefur ekki hlustað á alla sérfræðinga og hagsmunaaðila úr ferðaþjónustunni sem hafa sagt að leið hans, að hækka virðisaukaskattinn á gistingu í ferðaþjónustu, sé einmitt landsbyggðarskattur, sé einmitt leið til þess að stytta ferðir ferðamanna til Íslands, til að koma í veg fyrir að þeir fari út á land. Þar sem minni möguleikar eru á að velta hækkuninni út í verðlagið muni þessir staðir annars vegar sitja uppi með færri ferðamenn og hins vegar lægra verð. Ráðherra heldur því hins vegar fram að komugjöld sé landsbyggðarskattur, 6–7 þús. kr. kr. Í okkar hugmyndum er talað um 150 kr. farþegaskatt á flug innan lands, ekki 6–7 þús. kr. Það er verið að tala um 1.500 kr. á venjulegt flug til Evrópu og 2.500 kr. á lengra flug. Þetta er sambærileg aðferðafræði og menn nota í Þýskalandi, Bretlandi og Noregi og ýmsum öðrum löndum. Þetta er til. Þetta er leyft innan Evrópska efnahagssvæðisins, hæstv. forseti. Þetta má. Þetta gera aðrar þjóðir. Eru þessar upphæðir nægilega háar til þess að skila 4 milljörðum? Það var jú meiningin að hækkunin á virðisaukaskattinum ætti að gera það eftir árið 2018. Á árinu 2018 átti upphæðin að vera 10 milljarðar. Ef meiri hluti fjárlaganefndar er nú búinn að slá þá hugmynd af, vantar þá ekki 10 milljarða í tekjur ársins 2018? Er þá þetta plagg fjármálaáætlun næstu fimm ára ekki bara tóm þvæla því að strax á næsta ári vantar 10 milljarða í tekjur? Eða er það ekkert mál að það séu svona 10 milljarða sveiflur til og frá?

Ég fullyrði að með því að leggja á náttúrugjald sem við getum kallað svo, vegna þess að það mun verða til þess að allir munu vilja greiða það, náist þetta markmið. Auðvitað þurfum við Íslendingar að greiða það gjald líka. Viljum við ekki líka vernda náttúru okkar? Ég legg til hóflega gjaldtöku sem gæti ýmist verið útfærð sem komugjald eða brottfarargjald en er farþegaskattur, hækkun á gistináttagjaldi, þar sem sveitarfélögin fengju heimild til að leggja á allt að 5% gjald og hugsanlega halda eftir helmingnum hjá sér til þess að hafa peninga til þess að fara í nauðsynlega innviðauppbyggingu og framkvæmdir á ferðamannastöðum. Ég fullyrði að það sé mjög auðvelt að ná í þessa 4 milljarða með þeim hætti.

Nú sé ég (Forseti hringir.) og heyri að ræðutíminn er búinn (Forseti hringir.) og strax að aflokinni þessari ræðu óska ég því eftir að verða settur aftur á mælendaskrá þar sem (Forseti hringir.) ég náði fyrst og fremst aðeins að tæpa á einu málefnasviði atvinnuveganefndar, sem er ferðaþjónustan.