146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki neitað því að ég saknaði stjórnarþingmanna. En ég ætla nú að hrósa hæstv. ráðherra sem setið hefur undir umræðunni meira og minna. Hann kom að máli við mig og sagði að hann þyrfti að hlaupa, en er nú kominn aftur. Ég hefði gjarnan viljað hafa fleiri hérna þar sem ég var auðvitað ekki síður að beina máli mínu til þeirra en annarra þingmanna.

Í fjármálastefnuumræðunni hafði ég áhyggjur þar sem stjórnarþingmenn töluðu alls ekki í þingsal en gagnrýndu þá stefnu talsvert í fjölmiðlum en sögðu síðan: Engu að síður leggur meiri hlutinn til að stefnan sé samþykkt óbreytt, svo ég vitni nú bara til lokaorða þar. Ég skildi það þannig að á mannamáli þýddi það að þeir vildu ekki taka umræðuna vegna þess þeir að vonuðust til að hugmyndir þeirra og væntingar um aukið fjármagn væru einhvers staðar í fjármálaáætluninni. Nú sjá þeir það ekki heldur. Þá gefast þeir upp, skrifa í umsagnir og álit um (Forseti hringir.) að þetta gangi nú ekki lengur, vegna þess að þeir vita að þegar fjárlögin koma í haust (Forseti hringir.) verða þau byggð á þessari fjármálaáætlun. Ég er ekki (Forseti hringir.) viss um að þeir séu tilbúnir að samþykkja það frekar en þeir virðast vera (Forseti hringir.) tilbúnir að styðja (Forseti hringir.) fjármálaáætlun sinnar eigin ríkisstjórnar.