146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði alla vega skilið innleiðingu laga um opinber fjármál þannig að vissulega væri verið að taka þetta það vald skulum við segja eða það sem menn hafa upplifað sem vald í fjárlaganefnd að vera að úthluta smáum peningum á hina og þessa staði frá fjárlaganefnd, frá þinginu og setja valdið til þingsins á þennan tímapunkt, þ.e. þegar við erum að ræða stefnumörkunina. Það mun auðvitað ekki ganga upp þegar það er gert ef umræðan er ekki hér á milli stjórnarþingmanna og minni hlutans og þegar í ljós kemur í álitum og umsögnum meiri hluta manna í öllum nefndum að þeir gagnrýna plaggið en heykjast svo á að standa með sjálfum sér sem þingmenn og segja við framkvæmdarvaldið: Við þurfum að breyta þessu. Ástæðan er náttúrlega augljóslega sú að þeir eru hræddir um að stjórnin falli (Forseti hringir.) vegna þess að þeir ná ekki saman. Það er nokkuð augljóst. (Forseti hringir.) Það að hæstv. fjármálaráðherra skuli vera einn eftir að hækka virðisaukaskattinn á gistingu á ferðaþjónustunni er auðvitað besta dæmið um það.