146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa tvær setningar í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, í lið 7:

„Breyting á virðisaukaskatti á miðju ári er ekki æskileg og við undirbúning næsta fjárlagafrumvarps þarf að leita leiða til að endurskoða þá áætlun.“ Með öðrum orðum, fella hugmyndina.

Liður 8. „Meiri hlutinn telur ástæðu til að greina ítarlega kosti og galla þess að leggja komugjöld á farþega til landsins.“

Hér er til frumvarp til laga um náttúrugjöld þar sem er komugjald, farþegagjald, sem svarar reyndar þeirri gagnrýni sem hæstv. fjármálaráðherra var með á þær hugmyndir í Kastljósi. Þarf ekki að vera fullkomið. Þarf að skoða kosti og galla. Þarf að fara yfir upphæðir. Hér er tillaga, búið er að útfæra hana meira að segja í frumvarpi, sem samrýmist algjörlega hugmyndum meiri hlutans. Það hefði verið eðlilegra að leggja fram breytingartillögu, vilji menn breyta um stefnu. En það er hér sem við erum að tala um stefnumótun, ekki endilega nákvæmar upphæðir, en stefnumótun. (Forseti hringir.) Það er hægt. Frumvarpið er til.