146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Yfirstjórn þingsins hlýtur að hafa af því áhyggjur hversu lítinn þátt stjórnarmeirihlutinn tekur í þessari umræðu. Eins og ég sagði áðan í andsvari vekur það athygli að enginn þingmaður stjórnarmeirihlutans sá ástæðu til að hlýða á ræðu formanns Framsóknarflokksins. Ég er ekki að gagnrýna hæstv. ráðherra sem hefur verið hér nánast allan tímann, en hvar er meiri hluti fjárlaganefndar? Við erum búin að sjá, að mér sýnist, fimm hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar flytja hér ræður og tvo til viðbótar sem hafa komið sér hingað upp í andsvör. Við eigum hér umræðu um mikilvægasta plagg ríkisstjórnarinnar, fimm ára áætlun um það hvernig við ætlum að byggja hér upp samfélagið, hvernig á að útdeila peningum, hvernig á að innheimta tekjur. Getur verið að meiri hlutanum finnist það kannski vandræðalegt að hann ætlar ekki að taka þetta plagg alvarlega, hann ætlar bara að koma sér í gegnum þessa umræðu með sem fæstum orðum þannig að hægt sé að taka nýjar ákvarðanir í haust því að þau eru ekki búin að lenda málinu?

Herra forseti. Er yfirstjórn þingsins (Forseti hringir.) sátt við þessa umræðu um þetta mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar?