146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að koma hingað upp og þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að sitja hér. Það væri óskandi að formaður fjárlaganefndar, sem fer með málið, léti sjá sig hér í þingsal og væri með okkur í gegnum umræðuna, og að lágmarki aðrir stjórnarþingmenn sem sitja í fjárlaganefnd.

Þegar tillagan var lögð hér fram var gert ákveðið samkomulag um meðferð málsins. Ráðherrarnir komu hingað og svöruðu spurningum varðandi þær tillögur sem lágu fyrir. Það hefur slegið mig töluvert að nú skuli fjármálaráðherra sitja einn eftir með fjármálaáætlunina og aðrir ráðherrar skuli ekki láta sjá sig í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Ég veit að stór hluti af skjalinu var unninn í einstökum ráðuneytum, það sem snýr að markmiðum og aðgerðum, og það væri eðlilegt að hæstv. ráðherrar kæmu hingað (Forseti hringir.) og myndu bregðast við þeim athugasemdum, sem eru mjög veigamiklar, sem komu fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Ég óska eftir því að forseti kalli eftir því að ráðherrar verði hér við umræðuna.