146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni, ég held að það sé mjög mikilvægt. Ég sé að einn ráðherra hefur skráð sig til þátttöku hér og er á mælendaskrá, hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, jafnréttisráðherra, sem er af hinu góða. Ég sé mér leik á borði að geta spurt hann spurninga sem snúa að hans málaflokki. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hér komi ráðherrar og taki þátt í þessu.

Ég ætla að þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér og ég veit að formaður fjárlaganefndar hefur verið hér meira og minna, ýmist í sal eða hliðarsal, að fylgjast með, en aðrir hafa minna látið sjá sig hér og ekki tekið þátt í andsvörum eða reynt að eiga við okkur samtal. Og alltaf erum við að kvarta yfir þessu sama.

Hér erum við hins vegar að tala um viðamikið plagg. Þetta er ekki bara eitthvert mál. Hér er verið að ræða mál sem markar stefnu til næstu fimm ára eða byggir á þeirri fjármálastefnu sem þetta sama fólk samþykkti. Það er verið að gera hér veigamiklar tillögur til breytinga. Þær eru ekkert útfærðar og ekki er heldur sagt af hverju má taka. (Forseti hringir.) Það er bara talað um að færa megi á milli málaflokka en það hefur ekki komið fram af hverju má taka.