146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé full ástæða til að kalla eftir fleiri stjórnarþingmönnum í salinn. Hins vegar standa yfir fundir þingmanna stjórnarflokkanna núna. Þeir eru ekki í þingsalnum en þeir eru einhvers staðar. Þeir hljóta að vera að funda vegna þess að það er upplausnarástand í ríkisstjórninni.

Staðan er þannig að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, vill ekki hækkunina. Það mál er afvelta. Fjármálaráðherra vill róttækar aðgerðir og myntráð og virðist vera aleinn í heiminum um það. Heilbrigðiskerfið er fjársvelt og heilbrigðisráðherra er í útlöndum meðan þau mál eru rædd. Framhaldsskólinn er í sögulegu svelti. Það er algjört hugmyndaleysi í tekjuöflun. Fólki dettur ekkert annað í hug en að selja flugvelli.

Ríkisstjórnin er í stórkostlegum vandræðum og núna dettur henni það helst í hug máli sínu til stuðnings að það sé í raun og veru ekkert að marka þessa áætlun. Stóru átökunum verður ekki (Forseti hringir.) frestað nema í lengsta lagi fram að framlagningu fjárlagafrumvarps vegna þess að átökin eru mjög greinileg. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)