146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nærvera stjórnarsinna, með virðingarverðri undantekningu þar sem er hæstv. fjármálaráðherra, við þessa umræðu er æskileg. Hún er eðlileg og einfaldlega þingskylda manna, að almennt taka þátt í fundum Alþingis. Ég segi fyrir mig að ég væri mjög áhugasamur um að heyra meira frá stjórnarliðinu vegna þeirrar taktíkur sem stjórnarliðið hefur valið sér, að tala upp þessa áætlun, hvað það séu miklir peningar í henni og hvað þetta verði allt saman gott á næstu misserum og árum.

Að mínu mati er það ekki svo og skellurinn kemur þá í haust, þvert ofan í þennan málflutning, þegar fjölmargar stofnanir fá minni fjárveitingar að raungildi til rekstrar á árinu 2018 en 2017 vegna 2% aðhaldskröfu á reksturinn. En þessa aðferð hefur liðið valið sér.

Alþingi er margt meira en orðaskipti milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Alþingi er þjóðmála- og stjórnmálaumræðuvettvangur. Fundir fara fram í heyranda hljóði. Fundum er sjónvarpað (Forseti hringir.) og útvarpað og þá er hægt að nálgast á netinu. Ef stjórnarliðar velja að taka ekki þátt í umræðunni og eru ekki hér látum við það að sjálfsögðu ekki hafa nein áhrif á okkur. Við höldum áfram gáfulegum og uppbyggilegum umræðum um þetta mál.